Þegar mér var boðið á frumsýningu Þjóðleikhússins á verkinu Hreinsun eftir finnsku skáldkonuna Sofi Oksanen varð ég spennt því ég hafði lesið bókina og verð ég að segja að fáar bækur hafa haft eins mikil áhrif á mig og þessi.
Upphaflega samdi Oksanen verkið fyrir leikhús og skrifaði skáldsöguna svo upp úr því. Verkið sem var frumflutt í finnska Þjóðleikhúsinu árið 2007 varð mjög vinsælt og hefur skáldsagan ekki síður slegið í gegn. Hefur bókin fengið fjölda verðlauna, m.a. bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á síðasta ári.
Verkið fjallar í stuttu máli um líf kvenna í Austur-Evrópu og Eistrasaltsríkjunum, nánar tiltekið í Eistlandi frá seinna stríði og fram á okkar daga. Það hefst á yfirheyrslu hermanna yfir ungri stúlku þar sem hún er niðurlægð og lífi hennar ógnað. Strax í næstu senu sjáum við aðra unga stúlku, hana Zöru þar sem hún liggur aðframkomin og illa til reika fyrir utan bóndabæ í afskekktri sveit í Eistlandi.
Zara er fórnarlamb mansals og er á flótta undan kúgurum sínum, rússneskum mafíósum sem leita hennar og er það ljóst af skelfingu hennar að hún telur líf sitt í bráðri hættu.
Á bænum býr gömul kona, Alide sem skýtur skjólshúsi yfir Zöru og í gegnum þessar tvær sögupersónur kynnumst við sögu hertekins Eistlands, kúgunnar og miskunarleysis gagnvart þeim sem eru af einhverjum ástæðum ekki í náðinni hjá umbjóðendum herraþjóðarinnar og ekki síður stöðu kvenna í þeim heimi. Við áttum okkur einnig á því að unga stúlkan í upphafssenunni er Alide.
Verkið er mjög áleytið og svo sannarlega ekkert léttmeti. Það er mjög dramtískt og átökin sársaukafull. Það er alveg örugglega ekki allra en þeir sem hafa áhuga á málefnum kvenna og sögu ríkja fyrrum Sovjétveldisins ættu ekki að láta það fram hjá sér fara og það sama gildir fyrir unnendur bókarinnar sem eru fjölmargir.
Undir magnaða upplifun ýtir glæsileg sviðsmynd Ilmar Stefánsdóttur auk flottrar ljósa og hljóðhönnunar.
Höfundur er Sofi Oksanen
Leikstjórn: Stefán Jónsson
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Tónlist: Paul Corley
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Þýðing: Sigurður Karlsson
Leikarar: Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Pálmi Gestsson, Stefán Hallur Stefánsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Þorsteinn Bachmann