Íslenski dansflokkurinn býður upp á sannkallaða dansupplifun þegar flokkurinn frumsýnir EMOTIONAL þann 25. október næstkomandi á Nýja sviði Borgarleikhússins. Frumflutt verða tvö mögnuð dansverk eftir tvo unga og efnilega danshöfunda,Meadow eftir Brian Gerke og EMO1994 eftir Ole Martin Meland.
Grímuverðlaunahafinn Brian Gerke sækir innblástur til æskuslóða sinna í Montana í Bandaríkjunum við gerð verksinsMeadow. Útkoman er hugnæmt og safaríkt dansverk sem reynir á tæknilega færni dansaranna. Brian flutti til Íslands árið 2007 og stofnaði dansflokkinn „Steinunn og Brian“ með Steinunni Ketilsdóttur og hafa þau komið fram í meira en 50 mismunandi leikhúsum í Evrópu, á Íslandi og í Bandaríkjunum. Brian gekk til liðs við Íslenska dansflokkinn sem dansari haustið 2012 og er Meadow fyrsta dansverkið sem hann semur einn síns liðs fyrir flokkinn.
EMO1994 er hrátt, kraftmikið og líkamlega krefjandi dansverk sem tengir saman frumtilveru, eldmóð æskunnar og endurskipulagningu á stórbrotnum klisjum raunveruleikans. Danshöfundur verksins, Ole Martin Meland, er ungur norskur dansari og danshöfundur sem hefur starfað síðastliðin átta ár með Carte Blanche, nútímadansflokki í Noregi. Ole þreytti frumraun sína sem danshöfundur á alþjóðlegum vettvangi með verkinu „BROTHER“ sem hann samdi fyrir Carte Blanche og var frumsýnt í Norska Óperuhúsinu í janúar 2013. Í júní 2014 var verk hans „UNTITLEDPOLISH“ sem hann samdi fyrir Groteska leikhúsið í Kraká frumsýnt.
Þar sem nýsköpun og ferskleiki er í forgrunni á nýju sýningarári fékk dansflokkurinn myndlistarmanninn Palla Banine til liðs við sig við gerð veggspjalds sýningarinnar. Með samstarfi þessu vill Íslenski dansflokkurinn tvinna saman myndlist og danslist á nýjan hátt og þar með efla tengsl þessara tveggja listgreina enn meir.
Palli Banine hefur undanfarið verið að vinna að fallegri myndaseríu um árstíðirnar og prýðir vormynd hans veggspjald sýningarinnar. Listaverkið er sannkallað augnakonfekt og mun því dansflokkurinn bjóða dansgestum EMOTIONAL að kaupa endurprentun af listaverkinu sjálfu, áritaða af listamanninum.
Endurprentunin verður seld í mjög takmörkuðu upplagi, en einungis 30 eintök verða í boði. Ágóðinn af sölunni mun renna til Bleiku slaufunnar.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.