Leikritið Hótel Volkswagen er verk eftir Jón Gnarr borgarstjóra sem var frumsýnt á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu um síðustu helgi. Verkið er umdeilanlegt og vekur upp óhug og klígju um leið og fyndin augnablik og myndlíkingar úr íslenskum samtíma geta gripið áhorfandann.
Söguþráðurinn er einfaldur en skrýtinn. Pálmi og Siggi litli eru feðgar sem verða fyrir því óhappi að bíllinn þeirra bilar á því sem virðist stefnulausu ferðalagi. Þeir fá hjálp Svenna sem er hótelstjóri en það vill svo heppilega til að hann hefur ágætis bifvélakunnáttu og kemur feðgunum til bjargar. Á hótelið kemur svo daglega gamli nasistinn Ludvig Rosencrantz.
Hann bíður þess að fá sent á hótelið í pósti vegabréf sem muni koma honum úr því að lifa í skugga gerða sinna og senda hann í eilíft sumarfrí. Á hótelið koma svo einnig hjónin Adrian Higgings og Paul Jenkings sem eru samkynhneigðir karlmenn í mikilli tilvistarkreppu yfir því að geta ekki eignast börn.
Svo virðist reyndar vera að Paul geri sér bókstaflega ekki grein fyrir því hvers kyns hann er. Úr samskiptum allra þessara karaktera verða svo til senur sem eru hreint út sagt absúrd og sýna furðulegheit.
Hallgrímur Ólafsson sem leikur Svenna hótelstjóra á hrós skilið fyrir leik sinn. Hann kom persónu sinni afar vel til skila og stundum var sem hann einn héldi verkinu uppi. Svenni hótelstjóri er mjög umburðarlyndur, heimspekilega þenkjandi maður sem “skilur allt” og getur séð björtu hliðarnar á öllu.
Hann er samt í bullandi afneitun á því sem gengur á í umhverfinu – en stundum var maður sem áhorfandi því fegin vegna þess að það sem átti sér stað í verkinu gat verið svo óþægilegt.
Pálmi, sem leikinn er af Bergi Þór Ingólfssyni er ömurlegur pabbi. Það verður bara að segjast að þrátt fyrir að vera “undir álagi” sem einstæður faðir á hann engar afsakanir eftir. Það að fylgjast með stigmagnandi andlegu ofbeldi hans á syni sínum Sigga litla, sem er leikinn af Dóru Jóhannsdóttur, var ekki auðvelt og raunar þannig að manni varð nóg um.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=aUd61TvcmJM[/youtube]
Reyndar var Siggi litli líka alveg óþolandi greyið en það var ekki honum að kenna. Þegar hann fann landið sitt “Siggalíu” var honum bara sagt að það væri ekki til. Það var sorglegast af öllu. Í þessu spillta umhverfi var greinilega ekkert rými fyrir sakleysi og ímyndunarafl. Siggi litli var mikið fyrir að segja brandara og gátur sem hótelgestirnir hlustuðu á með meiri þolinmæði en faðirinn.
Raunar virtist sem nasistinn herra Rosencrantz hefði mestu þolinmæðina með Sigga litla. Það gat verið afar óþægileg tilfinning að fylgjast með hvernig gamall nasisti fúnkeraði í senn, siðblindur og viðkunnanlegur. Hann gat einnig gengið verulega fram af manni með valdaórum sínum sem hann talaði um eins og ekkert væri eðlilegra. Sem betur fer var þarna líka Paul Jenkins sem Jörundur Ragnarsson leikur. Jörundur stóð sig vel í hlutverki sínu og það gat verið kærkomið að hlægja að honum af og til um leið og það var furðulegt að fylgjast með honum og Adrian Higgins eiginmanni en samskipti þeirra voru með hæsta móti meðvirk.
Persónusköpunin var góð og leikararnir stóðu sig raunar allir með prýði en það var hinn absúrdíski söguþráður sem gat verið erfiður. Stundum þegar fólk í salnum hló var maður alls ekki með það á hreinu hvernig væri hægt að hafa svona rosalega svartan húmor. Sjaldnast hef ég haft gaman af bröndurum um nasisma, alkóhólisma, samkynhneigð eða barnaníð. En stundum þegar Siggi litli sagði brandara sína spurði Svenni hótelstjóri einmitt ” Er þetta gáta eða brandari?” Og þannig leið manni í raun út allt verkið, var verið að gera grín að áhorfendum?
Leikmyndin sem var gerð af Höllu Gunnarsdóttur var eins og spegill af sjálfri sér. Hún var einföld en virkaði vel sem rammi utan um verkið en sviðið var í miðjunni og áhorfendur sátu á móti hvorum öðrum. Það gat verið óþægilegt að sjá hina áhorfendurna velkjast um af hlátri yfir hlutum sem mig langaði að sjá hverfa í gleymskunnar haf. Einnig var sviðið sjálft eins hægra og vinstra meginn og stundum var hótelmóttakan færð til. Þetta fannst mér koma mjög vel út á svona verki og ekki er hægt að setja út á leikstjórnina – sem var í höndum Bendikts Erlingssonar, búninga eða tónlist sem komu verkinu vel til skila.
Víst er að áhorfendur áttu að líta í eigin barm og ganga út með hugleiðingar um sjálfa sig og íslenskan raunveruleika því þarna voru skýrar tilvísanir í siðblint samfélag en vera má að verkið hafi gengið það langt að ekki hafi allir haft lyst á því að hugsa um það meir. Þetta áhrifaríka verk er ekki fyrir alla því það ögrar en því er ekki að neita að það á erindi og vekur umhugsun – og fólk með kolsvartan húmor á í vændum mikla veislu.
Að endingu: Ég velti því fyrir mér hversvegna svona verk væri sett upp á stóra sviðinu en ekki í minni sal því á þann hátt gætu áhorfendur á vissan hátt gengt hlutverki en vera má að slík nálægð hefði orðið yfirþyrmandi. Eða var spillingarsmiðshöggið slegið með því að borgarstjórinn sjálfur mætti setja upp verk um spillingu á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu?
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.