Í Þjóðleikhúsinu er verið að sýna verk eftir þekkt breskt leikskáld, Jez Buttersworth, sem heitir á frummáli “Jerusalem” eftir ljóði Williams Blake.
Í uppsetningu Þjóðleikhússins er verkinu: “Fyrirheitna landið – Jerúsalem” leikstýrt af Guðjóni Pedersen en hann er reyndur leikstjóri sem t.d. leikstýrði verðlaunaverkinu Afmælisveislunni.
Fyrirheitna landið – Jerúsalem hefst á því að kynna til sögunnar aðalpersónuna Johnny Byron og opnar fyrir áhorfanda þann heim sem hann lifir og hrærist í – sem er ekki beinlínis til fyrirmyndar. Byron býr í rútu í skógarjaðri á landi sem ekki er hans eigið og þaðan á að fjarlægja hann. Til hans leita unglingar sem vita að hjá Byron er að finna nóg af áfengi og dópi – en ekki síst skjól.
Verkið er þriggja tíma langt og með tveimur hléum, svo að áhorfandi þarf að vera undir það búinn að gefa því “smá séns”. Það fannst mér ég þurfa að gera í fyrsta hluta verksins sem mér fannst vera langdreginn og einsleitur, stundum jafnvel hálfkjánalegur. Ég segi það vegna þess að ég fer einfaldlega hjá mér að horfa upp á leikara túlka unglinga í vímu að öskra “niður með Héraðsdóm” – en þetta þjónar allt þeim tilgangi að kynna söguna sem eftir fyrsta hlé hefur sig á flug.
Sagan er um Johnny Byron sem er maður sem ekki lætur segja sér hvernig hann eigi að haga sínu lífi um leið og hann er skotspónn í samfélaginu sem hann “tilheyrir”. Byron er leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni sem túlkar hann afskaplega vel. Hann heldur verkinu á háu plani með túlkun sinni á afar margbreytilegum og djúpum karakter og sýnir þannig hvað hann er sterkur leikari.
Spegill á samfélagið
En verkið fjallar ekki aðeins um Byron heldur einnig um samfélagið. Byron virkar sem spegill á umhverfi sitt. Hann er vissulega ekki fullkominn en það kemur í ljós að fólkið í kringum hann er ekki síður ófullkomið. Jóhann G. Jóhannsson leikur Ginger sem er týndur einstaklingur og einn þeirra sem leita til Byrons.
Þessi karakter er hinn mesti vitleysingur og Jóhann sýnir skemmtilega spretti í hlutverkinu en hann fær áhorfendur líka til þess að mynda samúð með Ginger – því hvað sem Ginger kann að vera annað, þá er hann góður vinur. Arnbjörg Hlíf Valsóttir, Saga Garðarsdóttir, Ævar Þór Benediktsson og Snorri Engilbertsson fara svo með hlutverk hinna dópuðu unglinga – sem eins og flestir “dópaðir unglingar” eru tækifærissinnar.
Flestir sem einhverja rullu spila í verkinu túlka alkóhólista eða dópista sem reyna að finna afsökun til þess að “fá sér” og flestir þeirra ná að upphefja sig á einhvern hátt á kostnað Byrons. Þeir geta s.s. verið vinir Byrons á meðan þeir fá það sem þeir vilja en eru tilbúnir að svíkja hann eða snúa við honum baki, jafnvel niðurlægja ef það hjálpar þeim við að halda eigin “fronti”. Þetta sér maður hjá næstum öllum sem koma við sögu: Baldur Trausti Hreinsson leikur bareigandan Wesley sem er undir hæl eiginkonu sinnar og á erfitt með að finna jafnvægi. Þetta bitnar á Byron m.a að því leiti að þrátt fyrir “vináttu” þeirra félaga er Johnny Byron bannfærður á bar Wesley. Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir og Friðrik Friðriksson leika þau Lindu og Luke sem tilkynna Byron að hann muni gerður brottrækur af landinu.
Glögglega má sjá hvursu þeim báðum líkar hið “göfuga hlutverk” að henda þessum róna (Byron) af lóðinni. Þó svo að ekki sé nú alltaf auðvelt að ráða í hvað sé satt og hvað logið hjá Byron þá má telja eitthvað við aðgerðirnar persónulegt, en fyrst og fremst eru sögur Byrons skemmtilegar og leiða áhorfandann ávallt aftur að því verkefni að leysa kollgátuna “hver hann sé”.
Eggert Þorleifs sem utangátta karlulga
Einnig koma við sögu fyrrverandi kona Byrons, Dawn, leikin af Margréti Vilhjálmsdóttur og sonurinn Marky, leikinn af Ásgeiri Sigurðssyni – skal þeim hér með hrósað fyrir sinn leik á einu bretti en ég varð afar snortin af samspili milli feðganna en ekki síður samspili hins fyrrverandi kærustupars.
Unga leikkonan Melkorka Davísdóttir Pitt leikur Phedru sem hefur flúið heimilisofbeldi af völdum stjúpföður síns Troy Withworth leiknum af Pálma Gestssyni sem er afar sannfærandi í sínu hlutverki. Klígja fór um mig og án efa fleiri í salnum þegar hann birtist á svið. (Þetta er hrós). Eggert Þorleifsson leikur síðan utangátta karluglu, prófessor sem virðist fyrir löngu hafa misst vitið en honum finnst gott að hitta Byron og fá sér hjá honum einn og einn sjúss. Þessi karakter er algjörlega ómissandi og Eggert sýnir þarna takta sem mynda þarfan léttleika í sýningunni.
Á þetta erindi við okkur?
Sumir spyrja eflaust hvað verk um dópista í Englandi eigi erindi við Íslendinga. Í verkinu sjálfu er tekið á “þröngum þankagangi” – t.d. tala unglingarnir í verkinu um það hversu mikill óþarfi sé að fluttar séu fréttir úr öðrum sýslum, þeim hafi næstum því verið farið að vera sama um konu í einhverri frétt þegar í ljós kom að hún byggi ekki einu sinni í sýslunni! Þetta finnst mér vera atriði sem fólk hljóti að hnjóta um spyrji það sig um erindi verksins við sig. Ennfremur á verkið erindi í víðari skilningi enda er það ekki aðeins ádeila á eitt ákveðið samfélag heldur er það menningarlegs og trúarlegs eðlis. Ljóð Williams Blake sem Jez Buttersworth skrifar verkið út frá veitir innsýn, auk þess má túlka nafnið “John Byron” sem vísun í enska skáldið Lord Byron (sem er einna þekktastur um ljóð sitt “Don Juan”). Ennfremur eru vísanir sem gefa í skyn að Johnny Byron sé Jesú og svo aftur lítur hann út fyrir að vera fallinn engill… Í verkinu er engin sterk kvenpersóna en það kemur þó ekki að sök – í því samhengi má einnig velta mörgu fyrir sér.
Leikmynd gerði Finnur Arnar Arnarsson og var hún vel heppnuð, lýsing var í höndum Ólafs Ágústs Stefánssonar, búninga sá um Elín Edda Árnadóttir og um tónlist sáu svo þeir Kristinn Gauti Einsarsson og Sigurvald Ívar Helgason. Öll umgjörð sýningarinnar var til fyrirmyndar að mínu mati en það voru hlutir í leikmynd sem vöktu upp spurningar hjá mér, sem er bara gott.
Listin hreyfir við okkur
Að lokum finnst mér gaman að segja frá því að notuð voru lög í sýningunni sem ég notaði sjálf í útvarpsþáttaröð sem ég gerði um Hiv á Íslandi og heitir “Andlit sjúkdóms” – skemmtileg tilviljun hér á ferð sem fékk mig sem áhorfanda til þess að upplifa hluta verksins á annan hátt en flestir í salnum (leyfi ég mér að fullyrða). Þannig er listin oft, hún hreyfir við fólki á mismunandi hátt – eins og ljóð sem hver og einn túlkar fyrir sig.
Í því samhengi má líka segja frá því að á sýningunni var nokkuð af eldra fólki í salnum sem sum hver þoldu ekki að horfa áfram eftir fyrsta hluta verksins og gengu þessvegna út áður en sýningin fór á flug en sem betur fer voru margir þakklátir áhorfendur því stundum hefur stemning í sal áhrif á upplifunina – sem miðað við lófatakið í lok sýningarinnar hlýtur að hafa verið mjög jákvæð! Þetta er á heildina litið virkilega áhrifarík og góð sýning – enda var ég ein þeirra sem klappaði mikið!
Mig langar að enda þennan pistil á einu þeirra laga sem bæði er í útvarpsþáttaröðinni og sýningunni – Know eftir Nick Drake:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=D0wx7tMvawo[/youtube]
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.