Á föstudag fer fram skemmtilegur viðburður á gamla veitingastaðnum La Primavera en þá verða listakonur Baileys heiðraðar annað árið í röð.
Listakonur Baileys í ár eru þær RAKEL MCMAHON, myndlistarkona, HILDUR YEOMAN, fatahönnuður og tískuteiknari og SAGA SIG, tískuljósmyndari.
Verk kvennanna verða höfð til sýnis og sölu en allur ágóði af kvöldinu rennur óskiptur til listakvennanna. Markmið Listakvölds Baileys er að vekja athygli á útvöldum listakonum og verkum þeirra og skapa þeim vettvang til þess að sýna verk sín og list í glæsilegri umgjörð en allar þykja þær hafa sett mark sitt á tísku og tíðaranda með heillandi listrænni sýn og verið öðrum ungum listakonum hvatning til frekari afreka. Í fyrra voru það þær Harpa Einarsdóttir, Una Hlín Kristjánsdóttir og Lína Rut sem hrepptu viðurkenninguna.
Hildur Yeoman
Hildur Yeoman útskrifaðist með BA gráðu í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2006 ásamt því að hafa verið í starfsnámi hjá Jonathan Saunders í London og Yazbukey í París 2004. Hildur hannaði fylgihlutalínu þar sem hún setur hefðbundið handverk í nýtt samhengi. Línan samanstendur af litríkum hálsmenum, höfuðskrauti
og töskum sem taka á sig form púðluhunda og annarra dýra. Hún frumsýndi aðra fatalínu sína Cherry Bomb á Reykjavík Fashion Festival (RFF) 2011 og hlaut mikið lof fyrir. Undanfarin ár hefur Hildur skapað sér nafn sem tískuteiknari meðfram hönnun sinni og hefur teiknað fyrir ýmsa hönnuði og blöð, bæði hér heima og erlendis.
Rakel McMahon
Rakel McMahon útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2008. Hún lauk svo Diplóma gráðu í Hagnýtri Jafnréttisfræði við Kynjafræðideild Háskóla Íslands árið 2009. Hún er annar stofnenda Gallerí Klósetts ásamt Jóhönnu K. Sigurðardóttur. Árið 2009 hélt hún sína fyrstu einkasýningu FEED ME, í KronKron og árið 2010 sýndi hún verkið sitt BREADWINNER hjá Torpedo18. Rakel hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og annarra menningarlegra viðburða á Íslandi og erlendis, þar má nefna Varsjá, Kaupmannahöfn og Edinborg. Rakel vinnur með tvo ólíka miðla, annars vegar gjörninga og hins vegar teikningu og málverk. Í verkum sínum reynir hún að
skapa ákveðið tilfinningalegt ástand og andrúmsloft. Til þess að hugmyndir og verkin í heild sinni verða áþreifanlegri skapar hún millilið. Sá milliliður er oftast nær karakter og er það í hans höndum að flytja boðskap eða skilaboð verksins.
Saga Sig
Saga Sig var einungis 8 ára gömul þegar hún byrjaði að taka myndir. Hún útskrifaðist af stærðfræðibraut úr Verzlunarskóla Íslands en lauk BA gráðu í tískuljósmyndun frá London College of Fashion fyrr á þessu ári og býr nú í London. Myndir Sögu hafa birtst í auglýsingum og tímaritum um víða veröld og vakið mikla athygli, þykja bæði draumkenndar og litríkar. Undanfarið ár hefur Saga tekið myndið fyrir tískublöð um allan heim, þar á meðal Dazed & Confused og Nylon og einnig fyrir tískurisann Topshop. H&M fjallaði um Sögu í haustblaði sínu og á vefsíðu fyrirtækisins auk þess sem sérstakt blað Dolce Gabbana, Swide, hampaði Sögu í viðtali. Á Íslandi hefur Saga tekið myndir fyrir KRONBYKRONKRON, Andersen & lauth og 66 gráður norður. Hér heima hefur Saga haldið tvær samsýningar með Hildi Yeoman í Kling og Bang. Nú stendur yfir sýning þeirra Hamskipti í Hafnarborg. Saga vinnur að bók sem fyrirhugað er að gefa út á næsta ári og þá stefnir hún einnig að sinni fyrstu einkasýningu.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.