Í Reykjavík er hægt að gera ansi margt sér til skemmtunar og yndisauka en eitt af því er að skella sér í High Tea á Vox barnum.
Margir hafa prófað að fara í hinn margrómaða brunch sem er í boði á Vox á sunnudögum en að honum ólöstuðum er High Tea líka ansi skemmtileg upplifun.
High Tea er upprunið í Evrópu en það var fyrst í Frakklandi á 17.öld sem heldra fólkið hóf þann sið að hittast yfir fallegu eftirmiðdagskaffi og gera sér glaðan dag. Í seinni tíð hefur High Tea aðallega verið borið fram á hótelum víða um heim en nú er það einnig að ryðja sér rúms á vinsælum veitingastöðum.
High Tea veitingar eru yfirleitt bornar fram á þriggja hæða fallegum bökkum og samanstanda af litlum samlokum af ýmsu tagi, jarðaberjum eða öðrum ferskum ávöxtum og fallegum litlum kökum. Með veitingunum er gjarnan drukkið ýmis konar te eða kaffi en yfirleitt er borið fram kampavín áður en hafist er handa við veitingarnar.
Það fylgir því skemmtileg ‘hefðarkatta’ tilfinning að hitta vinkonurnar yfir High Tea og smakka á því sem borið er fram á þriggja hæða bakkanum. Það eina sem vantar er korsilett, skrautlegur hattur og pils með fimmföldu tjulli undir svo að rassinn poppi út eins og hjá dömunni á Machintosh dósinni. Svo drekkurðu teið þitt með litla fingur út í loftið.
High Tea er líka frábær hugmynd ef þú vilt gera eitthvað skemmtilegt með mömmu þinni eða ömmu, smekkurinn fyrir fáguðum dekadens vill jú stundum aukast eftir því sem árin verða fleiri 😉 – svo drepur það heldur ekki makann að taka því rólega á þessum góða stað.
High Tea er lágmark fyrir tvo og kostar 2300 á mann. Skipt er um matseðil ársfjórðungslega en svona lítur hann út núna í Desember. Með þessu fylgir te eða kaffi. Matseðillinn er kannski heldur ‘macho’ fyrir minn smekk þessi misserin en maður veit víst ekki fyrr en búið er að smakka. Veit þó að mér finnast Sörur tilheyra himnaríki og að maturinn á Vox hefur aldrei valdið vonbrigðum.
Gott er að panta fyrirfram og láta vita hve von er á mörgum.
High Tea:
- Súrdeigsbrauð með roastbeef ( 1 stk )
- Seitt rúgbrauð með sveppakremi ( 1 stk )
- Samloka með krabbasalat ( 1 stk )
- Scones ( 1 stk )
- Rjómi, hinberjasulta, sítrónusulta
- Ávaxtabitar
- Smjörkökur með karamellukremi
- Muffins með hvítu súkkulaði og berjum
- Sara Bernhard
High Tea healty:
- Seitt rúgbrauð með sveppakremi ( 1 stk )
- Gulrótarbuff með gulrótarmauki á grófu brauði ( 1 stk )
- Krabbasalat á ristuðu sólkjarnabrauði brauði
- Scones með sultu og rjóma ( 1 stk )
- Rjómi, hinberjasulta, sítrónusulta
- Ávaxtabitar
- Hnetur og goijaber með 56% lífrænu súkkulaði
Díana Bjarnadóttir (pjattrófa) tók þessar flottu myndir þegar hún fór í High Tea með vinkonu sinni…
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.