„Íslendingar hafa alltaf verið sjálfum sér sundurþykkir,” sagði Ólafur Thors forsætisráðherra í frábærri ræðu þann 21. júní árið 1944. Hann vonaðist til að við gætum verið til friðs, eftir að við fengum sjálfstæðið.
Hann vonaðist til að við gætum unnið að því að verða samheldin, sjálfstæð og fín þjóð án þess að vera alltaf að rífast = sjálfum sér sundurþykkir.
Nú er svo komið að Íslendingar virðast hreinlega að tapa sér úr þessari sundurþykkni, – eða það upplifi ég amk í hvert sinn sem ég opna Facebook. Einu sinni var Velvakandi í Mogganum vettvangur fólks til að tjá neikvæðar skoðanir sínar á mönnum og málefnum, svo var það Þjóðarsálin á Rás 2 og síðan kom þetta athugasemdakerfi Facebook, sama ár og hrunið varð… eða 2008.
Heppilegt eða óheppilegt? Já maður spyr sig.
Vandinn við umræður á netinu er margþættur. Í fyrsta lagi sérðu engin svipbrigði eða heyrir raddblæ þegar þú lest athugasemd en hvorutveggja skipta meginmáli í öllum samræðum.
Í öðru lagi eru jafningjar sjaldnast að karpa eins og gengur og gerist almennt í mannlegum samskiptum. Þú sérð þetta til dæmis þegar þú kemur í fjölskylduboð, hvernig jafnaldrar raða sér saman og ræða málin. Miðaldra konur hópast saman, unga fólkið fer út af fyrir sig og gömlu karlarnir standa saman kringum grillið og halla sér örlítið fram eða aftur. Krakkarnir fara afsíðis í sjónvarpsherbergin og ræða Minekraft eða önnur mál.
Á netinu er þessu ekki svona farið því þar getur hver sem er rutt sér inn í samskiptin og hellt úr ruslatunnu á mitt gólf. Tekið hluti úr samhengi og fest sig í einu atriði sem er svo snúið út úr af kappi. Margir gera þetta hreinlega sér til skemmtunar, oft til að ná sér á svokallað “moral highground” en með því er verið að setja sig á háan hest og þykjast hafa sérlega yfirburði hvað varðar gott siðferði og góð gildi.
Leoncie og prófessorarnir fimm
Þetta er svona svipað og ef fimm prófessorar sætu saman í kaffinu að ræða flókin mál sem þau væru mjög sérfróð um. Skyndilega myndi Indverska prinsessan Leoncie hlamma sér við borðið hjá þeim og byrja að hrauna yfir mannskapinn, – kalla þau rasista og sitthvað fleira ófagurt.
Því næst kæmi fulltrúi kannabisreykingamanna á Íslandi og settist við borðið. Hann myndi snúa út úr öllu sem þau segðu og reyna trekk í trekk að beina talinu í umræður um lögleiðingu fíkniefna.
Þriðji þáttakandi í samtalinu væri svo maðurinn sem keyrði yfir húsið sitt á gröfu þegar bræðin í honum stóð sem hæst, kafrauður og reiður út í allt og alla. Það sér það hver maður að svona samskipti eru ekki vænleg til árangurs.
Í gær talaði ég við vinkonu mína sem er að flytja úr landi og ástæðan er ekkert flókin. Hún segir að stemmningin sé hreinlega að gera hana vitlausa. Þessi “þögli hávaði” og þessi sundurleitni gerir það að verkum að hana langar bara ekkert að búa hér lengur svo hún ætlar bara að flytja burtu, einstæð móðir með son sinn. Og hún er ekki sú eina. Persónulega þekki ég nokkuð marga sem hafa flutt burt eftir hrunið og ástæðan var ekki síður stemmningin í þjóðarsálinni. Það sama gildir svo fyrir fólki sem er flutt í burtu og fylgist með “umræðunum” úr fjarlægð. Þau hrista bara hausinn.
Mér finnst það í raun frekar áhugavert, svona þjóð og félagsfræðilega, ef fólk er farið að flýja eyjuna vegna þess að þetta er orðið svo skelfilega leiðinlegt partý.
Íslendingar hafa reyndar margir reynt að koma sér héðan síðustu aldirnar: Hvort sem um er að ræða vestur-Íslendingana sem sigldu til Kanada, allar stelpurnar sem fóru til Bandaríkjanna í seinna stríðinu, fólkið sem fór alla leið til Ástralíu upp úr 1970, þá 6000 sem eru núna búsettir í Danmörku, Íslendingana í Noregi og svo framvegis og framvegis.
Það er jú ekkert grín að búa á kaldri og fámennri eyju lengst norður í hafi þar sem kolsvartamyrkur ríkir meginhluta ársins.
Ekki verður grínið minna þegar stór hluti þjóðarinnar fær útrás fyrir alla sína innbyrgðu reiði í gegnum athugasemdakerfi fréttamiðla og Facebook svo að úr verður félagslegur sjúkleiki sem fólk flýr til að smitast ekki.
Fótbolti og pólitík og fjandinn er laus
Þetta er svona svipað og með Liverpool og Manchester United. KR og Val – Stjórn og stjórnarandstaða. Það er eins og almennar siðareglur gildi ekki lengur þegar knattspyrnu og/eða pólitík ber á góma og við breytumst öll í froðufellandi hooligans þegar kemur að því að hafa skoðun á þeim í “hinu” liðinu.
Málið er í svona fámennu landi þá eru “hinir” ekki til. Við erum einangruð hjörð sem samanstendur af nokkrum ættum eða “ættbálkum”. Ein heild… heild sem rífst allt of mikið. 300.000 manneskjur sem flestar eru skyldar.
Aðeins fleiri en búa á Amager í Kaupmannahöfn.
Við erum öll born again!
En spáum í eitt. Að sögn vísindamanna tekur það mannslíkamann sjö ár að endurnýja allar frumur líkamans. Heilafrumur, húðfrumur, blóðfrumur og svo framvegis. Ekki ein einasta fruma í okkur er sú sama og fyrir sjö árum. Þetta segir okkur að við erum öll orðin splúnkunýtt fólk síðan 2008 þegar hrunið varð!
Eigum við ekki að fagna því og hætta þessari sundurþykkni sem kemur verst niður á okkur sjálfum? Leita að því jákvæða í stað þessa að einblína á það sem okkur finnst neikvætt og fá kast yfir því. Gleðjast yfir því sem þó gengur vel í stað þess að ergjast? Sjá hverju það skilar.
Á morgun er þjóðhátíðardagurinn okkar. 71 ár frá því við fegnum sjálfstæði frá Dönum. Höldum upp á það í góðum fílíng. Hæ hó og jibbí jei. Þaggi bara?
Það gilda sömu lögmál fyrir sáluhjálp þjóðar og einstaklings: Leitum að því góða, látum gott af okkur leiða, horfum á það jákvæða og verum í núinu. Þá verður smátt og smátt meira gaman.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.