Seinasta miðvikudagskvöld í Bíó Paradís var fyrsta indverska kvikmyndahátíðin á Íslandi formlega sett en hún stendur frá 11.-20. apríl.
Hátíðin er haldin af samtökum sem heita Vinir Indlands en samtökin styðja meðal annars heimili fyrir munaðarlaus börn. Þau eru með styrktarforeldra á sínum böndum, styðja við starf fræðslumiðstöðva og skipuleggja sjálfboðaferðir en allur ágóði af kvikmyndahátíðinni rennur einmitt til samtakanna.
Á setningarhátíðinni var framandi matur frá Índlandi í boði og sýndar voru jógaæfingar við anddyrið. Einnig var kynning á hinu yndislega Indlandi og svo fengu gestir að horfa á stiklu úr fyrirhugaðri kvikmynd sem Arnar Sigurðsson vinnur að en myndin fjallar um Fjalla-Eyvind og Höllu og taka á myndina upp á Íslandi með indverskum leikurum og á tungumálinu Hindí.
Í lokin tók svo við sýning á kvikmyndinni Band Baaja Baarat. Myndin fjallar um um ungt fólk, þau Shruti og Bittoo, sem stofna saman fyrirtæki sem sér um að skipuleggja brúðkaup. Í myndinni sjást litrík og skemmtileg söng og dansatriði og var ótrúlega gaman að njóta alls þess sem Bollywood hefur upp á að bjóða.
Ég hvet alla til þess að kíkja á indversku kvikmyndahátíðina í Bíó Paradís til að upplifa eitthvað allt annað en venjulegt íslenskt bíó!
Dagskránna má finna HÉR
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=NnRorL4N5Bw[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.