Oft hefur verið talað um barnæskuna í lífi hverrar manneskju sem tímabil ábyrgðarleysis og frelsis. Sem barn áttu að geta leikið þér heilu dagana, tíminn er lengi að líða og kvaðir fullorðinsáranna eru óralangt í burtu.
Því miður held ég að þetta sé ansi mikið breytt hér á 21 öldinni. Börn í dag eru sum hver hlaðnari skyldum en foreldrar þeirra. Þau stunda kannski tvær til þrjár tómstundir, eru í fullu námi og þegar skóladegi lýkur tekur heimanámið við.
Ég á litla átta ára stelpu sem hefur frá því hún kom í annann bekk þurft að leysa verkefni heima við. Hún þarf að lesa og læra stærðfræði, skrifa og stundum eitthvað annað. Flesta daga vikunnar er hún í dansi, leiklist eða handbolta en þessar æfingar fara fram eftir skóla á milli kl 14-17. Svo kemur hún heim og við tekur lærdómurinn enda ætlast til að foreldrar aðstoði börn við heimanámið.
Oftast tekur heimanámið um hálftíma til klukkutíma hjá henni enda er hún orðin hálf þreytt þegar svo langt er liðið á daginn og nennir varla að læra. Við höfum samt ekki um annan tíma að velja. “Bannað að lesa Harry Potter þar til þú ert búin að læra”. (Hvort ætli gagnist henni betur?).
Tímaskekkja og skerðing á lífsgæðum
Mér verður stundum hugsað til foreldra sem eiga fleiri en eitt barn og eru sjálf í vinnu og yfirvinnu. Hvernig eiga þau að komast yfir þetta? Það er af sem áður var að konur unnu heima hjá sér og áttu kannski betra með að leiðbeina börnum sínum við heimanámið. Og svo er það hitt að upphaflega var heimanámið líkegast arfur frá farandskólum en þá fóru kennarar um landið og settu börnum verkefni til að vinna sem voru svo síðar reynd með prófum.
Mér verður líka hugsað til þeirra sem eiga foreldra sem hafa annað tungumál en íslensku sem sitt móðurmál. Ekki á það fólk gott með að leiðbeina börnum sínum sem verða í kjölfarið fyrir meiri ójöfnuði. Það er svo margt sem mælir gegn því að krakkar séu sendir heim með auka verkefni að leysa að skóladegi loknum. Tímarnir breytast en stundum breytast mennirnir ekki með.
Margrét Pála Ólafsdóttir skrifar sambærilegar hugleiðingar í bókina UPPPELDI ER ÆVINTÝRI sem kom út hjá Forlaginu í fyrra:
“Það má velta því fyrir sér hvenær heimanámið sé raunverulega viðráðanlegt verkefni hjá öllum börnum. Ekki síður má velta fyrir sér hvort heimanámið sé ekki lengur nám til að bæta fyrir skamman skóladag fyrri tíma heldur í reynd orðin þjálfun í að koma heim með óunnin verkefni sem þarf að sinna innan hvíldartímans. Þetta minnir óþyrmilega á líf margra foreldra sem þurfa aaaðððeins að kíkja á tölvupóstinn sinn, taka bara “eitt” símtal eða rétt að ljúka verkefni sem bíður þeirra í tölvunni og þarf að vera tilbúið á morgun. Á þessum heimilum getur fjölskyldan ekki notið heimilis -og fjölskyldulífs nema í skugga yfirvinnunar, bæði stórir og smáir. Í streitusamfélagi okkar er öllum hollara að eiga möguleika á hvíldartíma án slíkra skugga, yfirvinnu eða heimanáms.”
(bls. 177)
Ég er svo innilega sammála henni nöfnu minni!
Eins og ég segi. Tímarnir breytast og mennirnir verða að breytast með svo að það haldist jafnvægi og svo að við getum verndað lífsgæði okkar og heilsu. Ég er handviss um að Ísland getur enn, og mikið frekar, alið af sér gáfnaljós ef grunnskólabörn fá bara að læra meðan þau eru í skólanum og njóta þess svo að leika sér og vera börn þegar skóla lýkur. Ég er sannfærð um að það mun ekki draga úr gáfum þeirra eða getu.
Kennarar eiga að vera færir um að setja börnum verkefni sem raunhæft er að leysa á þeim tíma sem skólinn stendur yfir og bæði börn og fjölskyldur myndu verða hamingjusamari ef börnin (og foreldrar þeirra) þyrftu ekki að vinna skyldustörfin þreytt og dösuð eftir heilan vinnudag.
Ég vona að þetta komist frekar í umræðuna.
Draumurinn væri að öll grunnskólabörn geti fengið þá hefðbundnu fræðslu og þjálfun sem þau þurfa í þær 6-8 klukkustundir sem skólinn stendur yfir og að þau fái að njóta hvíldartímans með foreldrum sínum að degi loknum.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.