Alveg síðan markaðssetning og sölumennska hófst í gegnum auglýsingar í sjónvarpi og í öðrum fréttamiðlum hefur verið deilt um hvað sé rétt og rangt þegar kemur að aðferðum til þess að selja.
Lengi hafa verið uppi umræður um klámvæðinguna sem á sér stað í hinum vestræna heimi í dag og því miður virðist meirihlutinn kjósa að loka augunum fyrir þessari þróun.
Mér persónulega finnst eitt þegar klámvæðingunni er beint gagnvart fullorðnu fólki því við sem fullorðið fólk ættum allavega að vera fær um að hafa vit fyrir sjálfum okkur. En þegar kemur að leikföngum og teiknimyndafígúrum sem ætlað er börnum, fegurðarsamkeppnum fyrir börn og fleira get ég ekki orða bundist.
Þessi þróun á sér aðallega stað þegar kemur að ungum stelpum og hún hefur sláandi áhrif sama hvað við reynum að neita því. Ef teknar eru tölur frá Bandaríkjunum þá segja þær margt.
- Árið 2003 eyddu foreldrar 6-10 ára stúlkna 1.3 milljónum dollara í G-strengi handa dætrum sínum.
- Sama ár höfðu 35% stúlkna á aldrinum 6-12 farið í allavega eina megrun og 50-70% stúlkna á þeim aldri sem voru eðlilegri þyngd fannst þær of feitar.
- Árið 2010 höfðu 200.000 börn á aldrinum 13-19 ára farið í lýtaaðgerð til að láta breyta útliti sínu á einhvern hátt og frá árinu 1990 til ársins 2000 jókst eyðsla fyrirtækja í auglýsingar ætlaðar börnum og unglingum úr 100 milljónum dollara í 2 billjónir dollara.
Við verðum að muna í þessari umræðu að klám í þessu samhengi er ekki eitthvað sem sýnir kynlíf beint. Það er e-ð sem gefur í skyn að til dæmis börn séu kynverur og það er sannarlega eitthvað sem við ættum að varast að börnin okkar verði áður en þau eru tilbúin til þess bæði tilfinningalega og líkamlega.
Sem betur fer eru þessar breytingar ekki mikið farnar að láta á sér kræla hér á Íslandi, þegar kemur að börnum allavega. En ég hef samt sem áður tekið eftir leikföngum sem ég lék mér með þegar ég var barn sem hafa verið uppfærð og „betrumbætt“ frá því sem áður var til þess eins að gera þau að því er mér virðist, meira aðlaðandi eða jafnvel kynþokkafull… þó mér finnist allt rangt við að nota það orð yfir eitthvað sem er ætlað börnum.
Ég get allavega ekki séð að tilgangurinn sé neinn annar þegar kemur að breytingu eins og þeim sem átti sér stað á eftirfarandi leikföngum og teiknimyndafígúrum.
Leyfum börnum að vera börn eins lengi og þau vilja og þurfa.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.