Íslendingar eru þessa dagana að gera það gott í London. Þar á meðal Emil Ásgrímsson sem er að útskrifast úr grafískri hönnun úr Central Saint Martins…
Emil vinnur að lokaverkefninu sínu ásamt því að vera þess heiðurs aðnjótandi að vera með sýningu í The Book Club, sem er ‘trendy’ kaffihús á Leonard Street í Shoreditch.
Þar sýnir hann klippimyndir (collages) sem hann hefur verið að dunda sér við að gera meðfram náminu sínu. Eins og hann lýsir því þá fær hann gríðarlega löngun til að gera eitthvað með höndunum þegar hann er búinn að liggja lengi í tölvunni eða yfir bókum og þá fer hann að “föndra” þessar skemmtilegu klippimyndir, smíða lampa eða hengja upp hillur.
Emil fær innblástur m.a. frá íslenskri náttúru og veðri, hann notar skæra liti í bland við jarðliti og leikur sér að húmor. Hann hefur einnig gert samstarfsverkefni við ljósmyndarann íslenska Marsy Hild fyrir tískuverslanirnar River Island. Þar sést glöggt hvernig honum tekst að koma tískunni á framfæri á skemmtilegan og fágaðan hátt um leið og hann gerir grín að henni.
Íslendingar sem eiga leið um London núna og til og með 26 apríl ættu að kíkja inn á þessa skemmtilegu sýningu á The Book Club. Kaffihúsið sjálft er alveg nóg aðdráttarafl út af fyrir sig með borðtennisborði, bókum og flottri hönnun en þessi sýning hans Emils toppar það.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.