Konur hins vestræna heims velta því talsvert fyrir sér hvaða áhrif kvenfyrirmyndir úr skemmtanabransanum og fjölmiðlum hafa á okkur þessar ‘venjulegu’ sem heima sitjum. Neytendur skemmtiefnisins.
Við pælum í fyrirbærinu ‘útlitsdýrkun’ og margir eru sammála um að sú dýrkun sé fyrir löngu orðin meiri en góðu hófi gegnir.
Allt í kringum okkur blasa við mjög óraunhæfar “fyrirmyndir”. Venjulegar konur sem hafa verið fótósjoppaðar þannig að þær líkjast helst teikningum eða dúkkum úr plasti. Teikningarnar eru oftar en ekki beint úr smiðju Disney þar sem ‘fullkomnar’ prinsessur með ýktar kvenlegar línur höndla bæði prinsinn og hamingjuna í lok hverrar myndar.
Loryn Brantz, starfsmaður hjá Buzzfeed, tók sig til og prófaði að fótósjoppa mitti á Disneyprinsessur þannig að þær væru ögn líkari mennskum verum. Hún segist hafa fengið smá sjokk þegar hún fór að skoða Elsu úr Frozen og sá að ekkert hafði breyst síðan á fimmta áratugnum. Mittin eru stundum jafn mjó og hálsinn á þessum dísum sem litlar stelpur dýrka og dá frá því þær byrja í leikskóla – og lengi býr að fyrstu gerð. Börn gera síst greinarmun á ævintýrum og raunveruleika.
Brynhildur Björnsdóttir og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir gerðu í sameiningu mynd sem þær kalla Stattu með þér en myndin, sem var styrkt af Velferðarráðuneytinu, er ætluð fyrir krakka á aldrinum 10-12 ára og í henni er komið inn á hverskonar ofbeldi.
Einn kaflinn í myndinni, sem er eiginlega skylda að horfa á, fjallar um fyrirmyndir en þar útskýra Brynhildur og Þórdís m.a. hvernig þessar dúkkur og teikningar myndu aldrei geta lifað, melt matinn sinn og andað, væru þær raunverulegar manneskjur. Myndina má sjá HÉR.
Það er gott að þessi vakning rís á vitundaröldunni. Það er heimsþekkt uppskrift að óhamingju að miða sjálfan sig við aðra, hvað þá ef maður miðar sig við teiknimynd eða fótósjoppuð fyrirbæri og reynir að líkjast þeim með einum eða öðrum hætti. Firringin gerist varla meiri.
Þá er hætt við að maður endi jafn óskaplega steiktur og hún Valeria Luckyanova og vinkonur hennar, eða sænsku systurnar Emma og Sara sem fjallað var um á Pjattinu í gær.
Eins og sjá má á þessum myndum eru prinsessurnar ekkert verri þó þær líti út fyrir að geta melt matinn sinn og jafnvel haft ristil sem virkar. Spurning hvernig klósettferðirnar ganga hjá Valeriu? Þetta hlýtur að taka svolítið á.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.