Ég fór með dóttur minni á frumsýningu danssýningarinnar “Fullkominn dagur til drauma” enda finnst okkur mæðgum yfirleitt gaman að gera okkur glaðan dag – eða kvöld.
Ég hlakkaði ekki síst til vegna þess hve vel er látið af danshöfundinum Anton Lachky. Hann var víst aðeins fimm ára þegar hann byrjaði að dansa, kláraði dansmenntun sína í heimalandinu Slóvakíu og hefur verið meðlimur í hinum rómaða dansflokki Akram Khan Company. Dóttur mína hlakkaði til vegna þess að dansverkið hefur orð á sér fyrir að vera fyrir alla börn, fullorðna, konur og karla!
Sálumessa, húmor og trúðslæti
Sýningin byrjaði strax skemmtinlega og við duttum inn í hana. Fljótlega var hún þó brotin upp. Eftir húmor og hálfgerð trúðslæti byrjaði að spila hin undurfagra Sálumessa eftir Verdi. Dansararnir sýndu hæfileika sína en ég sá enga sögu á sviðinu, enda á sýningin að virka meira eins og draumur.
Sýningin var frekar súrrealísk. Það sem okkur mæðgum fannst skemmtilegast að fylgjast með, var í raun ólíkt. Dóttir mín hafði meira gaman af trúðslegum leikjum á meðan mér fannst skemmtinlegra að fylgjast með senunum sem komu inn á milli og sýndu betur hæfileika dansaranna. Persónueinkenni hvers dansara fyrir sig skein í gegn. Mér fannst þó svolítið mikil uppbrot á köflum og fann ekki alveg flæðið í sýningunni.
Menning fyrir mæðgur
Dansarar Íslenska dansflokksins svíkja þó aldrei, þeir eru allir hæfileikaríkir og gefa af sér á sviðinu. Sérstaklega fannst mér gaman að fylgjast með nýju dönsurunum þeim Ásgeiri Helga Magnússyni og Þyrí Huld Árnadóttur. Svo var m.a. kafli með Lovísu Ósk Gunnarsdóttur sem mér fannst unun að horfa á.
Ég mæli með sýningunni fyrir allt dansáhugafólk og ekki síst fyrir fólk sem vill njóta menningar með börnum sínum. Ég tala nú ekki um ef barnið stundar dans eða horfir aðeins of mikið á Disneymyndir – Sýningin er mátulegur klukkutími — sem er mjög góður tími fyrir athygli barnsis.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Ia_ctTRy1wk[/youtube]
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.