Ég skellti mér nýverið á Bjart með köflum, nýjasta stykki Ólafs Hauks Símonarsonar. Hann er þekktur fyrir ekki verri verk en Gauragang, Þrek og tár og Hafið. Auk þess hefur hann samið ljóð, bækur og sönglög. Hann er sem sagt þungaviktarmaður innan leikhúsbransans og verkinu er leikstýrt af Þórhalli Sigurðssyni sem hefur oft sett upp verk eftir Ólaf Hauk.
Bjart á köflum gerist á sjöunda áratugnum og fjallar um lífið í sveitinni. Jakob, ungur strákur frá Reykjavík kemur til þess að vinna á bónabæ. Það er myndarlegur nýútskrifaður leikari sem heitir Hilmir Jensson sem fer með hlutverkið. Mér fannst hann, og reyndar allir þessir nýju leikarar, vera að standa sig vel og gefa frá sér ferska orku á sviðinu.
Á þessum bóndabæ býr fátæk og litrík fjölskylda og á næsta bæ við er svo önnur fjölskylda sem er nokkuð efnaðari. Verkið gerist á umbrotatímum og á þessvegna ýmislegt sammerkt með samtímanum. Gaman er að fylgjast með deilum, ástum og örlögum þessara sveitunga.
Hress lög á borð við „Ég elska alla” eftir Hljómar og rólegri lög, eins og lag Gunnars Þórðarsonar „Þú og ég” með hinum ódauðlega texta Ólafs Gauks skapa stemninguna. Rómantíkusum er ekki til setunnar boðið.
Hér er smá stemning:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=HjJ_kX-ROCw&playnext=1&list=PLD0C4C81798CC5619 [/youtube]Í salnum voru ungir sem aldnir, enda er þetta svona ekta fjölskyldusýning. Ég fór hálfpartinn að sjá eftir því að hafa ekki dregið með mér pabba „gamla”. Reyndar mæli ég bara eindregið með því gott fólk að þið komið foreldrunum á óvart, dragið þau í leikhús og eigið með þeim góða stund. Það er stundum aðeins of vanmetin skemmtun. Það var þarna eldri kona sem bara gat ekki hætt að klappa saman lófunum og dilla sér við lögin.
Og fyrir þá sem „meika ekki” leikhús er ég með gott ráð: Bíðið róleg í smá stund þar til mesti aulahrollurinn er farinn og reynið svo að gleyma ykkur, þá kemur þetta og þið munuð labba brosandi út! (Ef ekki þið, þá allavega mamma og pabbi, það er ég viss um…)
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.