Eitt af því skemmtilegasta sem sex ára gömul dóttir mín gerir er að fara í leikhús. Henni finnst það margfalt meira spennandi en að fara í bíó og hlakkar oftast til í margar vikur þegar ný leikrit koma á fjalirnar, því trúðu mér, hún fylgist með.
Um daginn skelltum við okkur á Ballið á Bessastöðum sem nú hefur verið í sýningu í Þjóðleikhúsinu um nokkurt skeið.
Þetta var sannarlega besta skemmtun og þá er flest sem hægt er að týna til. Leikararnir voru voðalega skemmtilegir og umgjörðin, sviðsmyndin, alveg frábær. Á köflum fannst mér ég vera komin inn í teikningu eftir Halldór Baldursson. Búningarnir allir svo sniðugir og útfærslurnar góðar.
Sjáið t.d. búninga norska kóngsins og konu hans. Minnir mig á 80’s árin þegar pörum þótti fínt að fá sér samstæða Don Cano galla með krumpuívafi. Ullarsokkar forsetans þóttu mér líka afbragð.
Sagan er einföld. Ferðalag norskrar prinsessu um íslenska sveit og vinskapur hennar við þreyttan íslenskan forseta sem gerir ekki annað en að verða við bónum annara. Boðskapurinn er auðvitað að maður eigi að fylgja hjartanu og leyfa sálarblóminu að spretta, og eiga sér vin, hvort sem maður er forseti eða prinsessa. Svo fann forsetin líka ástina sem er jú alltaf gott.
Þetta leikrit er skemmtileg upplifun fyrir bæði börn og foreldra, ekki einungis vegna sögunnar og söngvanna heldur er heildaryfirbragðið allt svo glaðlegt og skemmtileg.
Ég mæli með því að kíkja á Ballið með litlum hnokka eða hnátu og eiga litríka og dramatíska stund. Öll börn elska leikhús og þetta er verk sem ungir sem aldnir geta haft gaman af.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.