Valentínusardagur er nýliðinn, bóndadagur var í síðasta mánuði og konudagur er á sunnudaginn.
Allstaðar eru auglýsingar, frá blómabændum, konfektbúðum, veitingastöðum og skartgripasölum. Þeir bjóða allir upp á það sem á að gera daginn fullkominn fyrir elskuna þína -en er hægt að kaupa rómantíkina?
Eflaust hjálpa falleg blóm, góður matur og dekur til við að eiga góðar stundir, en ef maður hugsar tilbaka og man eftir rómantískustu stundum sem maður hefur átt með ástinni sinni, höfðu þær þá nokkuð að gera með þessa hluti?
Þegar ég hugsa tilbaka þá eru það ekki gjafir, veitingahúsaferðir eða skart sem hefur leitt til þessarra fullkomnu augnablika með ástinni minni, það eru stundirnar sem við höfum átt saman og notið.
Fyrir mér eru það augnablikin sem maður hefur átt saman í fullkomnum samhljóm sem eru rómantísk.
Maður getur átt þessar stundir hvar sem er, maður getur skapað þær eða notið þess sem er til staðar, fegurð náttúrunnar, borgarljósanna, stjarnanna, sólarlagsins, tónlistar, matar, fegurðar, listar..
Þegar ég hugsa tilbaka þá eru það ekki gjafir, veitingahúsaferðir eða skart sem hefur leitt til þessarra fullkomnu augnablika með ástinni minni, það eru stundirnar sem við höfum átt saman og notið.
Rómantíkin birtist líka þegar sá sem maður elskar er manni styrkur þegar á móti blæs, sem hvetur mann áfram þegar maður er að gefast upp og sem eldar handa manni súpu þegar maður er veikur.
Blóm, súkkulaði, nudd, þetta eru allt góðir hlutir sem hægt er að kaupa en umhyggjusemi, styrk og vináttu er ekki hægt að kaupa.
Gerðu eitthvað fyrir ástina þína á Bóndadag, Valentínusardag, Konudag og alla aðra daga, rómantíkin er í hjartanu ekki buddunni.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.