Út ert þú við eyjar blár
en ég er seztur að Dröngum
blóminn fagur kvenna klár
kalla ég til þín löngum
Ekki veit ég hver samdi þetta kvæði hér fyrir ofan en það er vel hugsanlegt að það hafi verið einhver sem var skotinn í langömmu minni, Ágústu Hjartar, sem fæddist árið 1898 að Dröngum í Dýrafirði og bjó þar þangað til hún flutti til Reykjavíkur einhverntíma um 1920.
Í tilefni af upprifjun Fanneyjar um skrif mín um Þuru í Garði langar mig að birta hér efni eftir sjálfa ættmóður mína í móðurlegginn, Ágústu Hjartar úr Dýrafirði.
Langamma samdi sjálf mikið af ljóðum, meðal annars þessa fegurð sem mér sýnist vera um einhverjar ástir í meinum:
Ástarljóð
Á kvöldin þegar aðrir kærleik hljóta,
kysi ég að búa í faðmi þér,
allrar þinnar ástarblíðu njóta,
og alls hins besta er gefa vildir mér.
Eins og sólin sendir geisla hlýja,
af svefni vekur jarðarblómin smá,
Ástin þín mig aftur gerir nýja,
endurreist er fallin lífsins þrá.
Stundum meðan straumar tímans renna,
stend ég hljóð og hugsa um vininn minn.
Þegar lífsins logar allir brenna,
læðist ég, í draumi til þín inn.
Þá er dýrð að dvelja í faðmi þínum,
drekka bikar sælu af vörum þér,
það eyðir öllum angurstundum mínum,
aftur lifir Guð í sjálfum sér.
_______________________________________
Þeir voru nú reyndar nokkrir skotnir í henni langömmu skilst mér, enda sterkur persónuleiki, heillandi og gáfuð kona.
Meðal þeirra voru Nói bátasmiður sem smíðaði handa henni ofsalega fallega útskorna kommóðu og dröslaði henni til Reykjavíkur. Stillti kommóðunni upp á tröppunum hjá langömmu og fór svo heim til sín. Hún hryggbraut hann samt.
Hinsvegar vildi hún hann langafa minn, Björn Maríon Björnsson. Hann var bókbindari og sérvitringur með meiru. Stundaði jóga, aðhylltist kenningar Krishnamurti og spilaði á básúnu og trompet. Hjólaði árlega úr miðbæ i Borgarfjörð og svaf þar undir berum himni. Þegar sjöunda barn þeirra fæddist þá vildi hann skilja. Hann var nefilega svo andlegur.
Grunar að hún hafi þó aldrei hætt að vera skotin í honum. Hann bjó alltaf á Grettisgötu og hún með börnin sjö á Njarðargötu.
(Ætli það geti flokkast sem erfðasjúkdómur þegar konur verða alltaf skotnar í mjög skrítnum mönnum? Kári?)
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.