Verðum við að þvo okkur án sundfata? Verðum við að vera allsnakin í sturtunni til að fara hrein ofan í laugina? Er þetta nauðsynlegt eða gamlar reglur sem eiga ekki lengur við?
Árið er 2015! Útlitsdýrkun er í hámarki. Krafan frá útlitslöggum alheimsins um það að hvert einasta fet á líkama konu þurfi að vera rakað er enn haldið hátt á lofti, sérstaklega meðal unglingsstúlkna, þó að einhverjar hafi bein í nefinu til að synda á móti straumnum og fara sínar eigin leiðir með myndarlegt krikaloð og fagurloðna leggi!
Útlitsdýrkun og allskonar kröfur
Karlmenn þurfa að vera með helskorinn sixpakk og upphandleggi á við grískan guð og allt á þetta að vera bert og sýnilegt þannig að strákarnir raka hvern krók og kima líkamans nema andlitið.
Og með allar reglur útlitsdýrkunar á bakinu mæta börn og unglingar nýrökuð í skyldusund með öllum þeim sýkingarhættum sem því nú fylgir. Þar verða þau að fara nakin í sturtu fyrir framan hvort annað með mismótaða líkama og standa berskjölduð frammi fyrir hvoru öðru.
Þessi kvöð sem fylgir skyldusundinu gerir það að verkum að skróp og óútskýrðir magaverkir á skólasunds degi eru að verða stærsta vandamálið í unglingadeildum skóla landsins. Við erum öll misspéhrædd og eru margir sem markast það hressilega af þessari alíslensku skyldu að þau fara helst ekki í sund eftir að skyldusundi líkur um 16 ára aldurinn!
Af hverju er þetta svona nauðsynlegt?
Af hverju er svona mikil nauðsyn að við deilum þeirri mjög svo persónulegu upplifun, að fara nakin í sturtu með Gertrud frá Þýskalandi sem við vorum fyrst að líta augum í mátunarklefanum og komum aldrei til með að hitta aftur?
Af hverju þarf ég að standa nakin, og sápa mig fyrir framan áðurnefnda Gertrud, áður en ég fer út í sundlaug sem er svo bakkafull af klór að augun í mér verða strax blóðhlaupin?
Af hverju má ég ekki smeygja mér í sundfötin áður en ég fer í sturtuna og sápa mig bara í gegnum þau?
Ef einhver er svo óhrein/n að það verður heilsuspillandi fyrir aðra að manneskjan fara ofan í laugina, þá er það ekki að fara að lagast þó viðkomandi stökkvi nakin/n undir sturtu – (taki fljótann kattaþvott með nánast ósýnilegu magni af sápu eins og svo margir gera) einfaldlega til að komast í sundfötin sem fyrst og stökkva svo út í klórfyllta laug.
Í þessu samhengi langar mig að minnast á ákveðið atriði sem átti sér stað þegar ég var svona sirka fjögurra ára. Ágætis röksemdafærsla í þessari umræðu:
Ég fór með móður minni í sund í Laugardagslaug á sólríkum sunnudegi. Laugin var full af fólki og það var alveg ofsalega gaman að mínu mati.
Allt í einu, eftir allof stuttan tíma, ákveður mamma að vera Lína leiðinlega og drífa okkur uppúr og heim (og ekki einusinni loforð um ís sko!). Þegar við erum komnar inn í sturturnar, (ég úr kútnum og við báðar úr sundfötunum) tek ég þá skyndiákvörðun að hlaupa út úr klefanum- nakin- og stökkva beint út í laug.
Þarna þurfti móðir mín allsnakin að taka split second ákvörðun:
Að hlaupa nakin út í laug og bjarga barninu sínu, eða láta mig drukkna! Ég er að skrifa þennann pistil þannig að ákvörðun hennar er augljós- og nekt hennar á þeim tíma var það líka, öllum sem voru í lauginni!
Það fyndna er að ég var ekki svo langt frá því að þurfa að taka þessa ákvörðun nú fyrr í sumar með son minn. Ég var bara svo heppin að ná honum áður en hann var kominn út! Ef nekt væri ekki skylda í sturtum sundlauga hefði móðir mín tilæmis verið í sundbol þegar ég, alveg ósynd, ákvað að æfa dýfingar án kúts í Laugardalslauginni…
Furðulegt í augum útlendinga
Þessi hefð okkar íslendinga að allir eigi að vera allsberir að þvo sér er mjög merkileg og mjög undarleg.
Það hafa meira að segja verið skrifaðir pistlar af erlendum vefritum sem fjalla alfarið einmitt um þetta alíslenska fyrirbæri- Að fara nakinn í sturtu fyrir sund!
Þar eru tilvonandi túristar Íslands varaðir við því að vel eigi nú eftir að fjúka í hinn almenna Íslending ef téðum túrista dettur í hug að taka sundfataklætt steypibað og megi áðurnefndur túristi eiga það yfir höfði sér að vera ávíttur fyrir athæfið!
Á meðan liggjum við Íslendingar svo á sundlaugarbakkanum á Hotel Gala á Tenerife, mökum okkur í sólarvörn og/eða olíu, steikjum okkur upp í ákveðið hitastig og dúndrum okkur svo eldsnöggt ósturtuð út í laug sem er með mikið lægra klórmagn en Íslenskar laugar bjóða upp á– og finnst ekkert athugavert við það!
Eru nakin steypiböð fyrir sund að forða okkur frá svo stórhættulegum sýkingum að brot á sjálfsmynd og sár á sál unglinga eftir að hafa verið staðin að því að brjóta reglur útlitsdýrkunarinnar er sjálfsagður fórnarkostnaður eða er þessi ævaforna regla að verða svolítið úreld og kominn tími á endurskoðun? Þið vitið væntanlega hvað mér finnst…
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.