Síðasta miðvikudag skrapp ég í Hafnarfjörðinn með dóttur minni og nokkrum bekkjarfélögum hennar á forsýningu nýrrar leiksýningar í Gaflaraleikhúsinu sem heitir Ævintýri Múnkhásens.
Margir þekkja eflaust til sögunnar um Múnkhásen (nafn hans er líka kennt við lygasýki). Hafa annaðhvort lesið ævintýrin (sem eru eftir Rudolph nokkurn Raspe og komu fyrst út á seinni hluta átjándu aldar) eða séð kvikmyndina (sem er frá 1988) en það gerði ég reyndar ekki og því kom sýningin skemmtilega á óvart.
Á sýningunni var mikið af börnum og sum þeirra þurftu að setjast á pullur sem voru settar framan við sviðið. Dóttir mín og vinkona hennar vildu sitja þar og satt að segja var ég ekkert óskaplega spennt fyrir því að sitja “ein” á barnasýningu. Manni finnst svona yfirleitt skemmtilegra að upplifa barnasýningar með barninu sínu. En það sem ég vil segja og er mitt helsta hrós er að það kom ekki að sök. Ég gleymdi mér rétt eins og börnin og skemmti mér vel.
Þetta eru skrautlegar ævintýrasögur sem eru settar fram með hjálp flottrar leikmyndar, ljósa, leikmuna og leikbúninga á yndislega hugvitsaman hátt. En ekki síður leikaranna sem standa sig allir vel og hver hæfir sínu hlutverki.
Ævintýri Múnkhásens er sýning sem sýnir töfra leikhússins. Það eru mörg atriði þar sem börnin þurfa að átta sig á að eitthvað er svona eða hinsegin “vegna þess að þau eru í leikhúsi” – rúm getur verið hellir, það er hægt að klifra til tungslins og sitthvað fleira.
Sýningin er skemmtilega súrrealísk og uppfull af húmor. Það er í rauninni allt sem börn vilja í sýningunni; söngur, gleði og glens og sagan er eitt ýkt ævintýri. En mér fannst rauður þráður sögunnar sem fjallar um kynni Múnkhásens við “gúrkuprinsessuna” voðalega fallegur. Gúrkuprinsessan er sem sagt konan hans en hún er komin með svo mikil elliglöp að Múnkhásen gerir allt hvað hann getur til þess að lífga minni hennar við og fá hana til þess að muna eftir þeirra fyrstu kynnum og góðu ævintýrum.
Þetta eru skrautlegar ævintýrasögur sem eru settar fram með hjálp flottrar leikmyndar, ljósa, leikmuna og leikbúninga á yndislega hugvitsaman hátt. En ekki síður leikaranna sem standa sig allir vel og hver hæfir sínu hlutverki.
Það er óhætt að segja að það sé fagmannlega staðið að sýningunni en leikstjóri er Ágústa Skúladóttir sem leikstýrði Töfraflautunni. Handritshöfundur er Sævar Sigurgeirsson einn meðhöfunda síðustu þriggja áramótaskaupa. Leikarar eru: Gunnar Björn Guðmundsson, Gunnar Helgason, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Magnús Guðmundsson og aukaleikarar eru: Virginia Gillard, Huld Óskarsdóttir, Gríma Kristjánsdóttir og Sara Blandon.
Þetta er greinilega gott teymi sem vinnur vel saman því sýningin er vel leikin og vel heppnuð.
Allir í Fjörðinn að sjá skemmtilega leiksýningu! Ég mæli með þessari.
Næstu sýningar eru:
- Sunnudagur 25. mars kl 14.00
- Fimmtudagur 28 mars kl 20.00
- Laugardagur 31. mars kl 14.00
- Sunnudagur 1. apríl kl 14.00
Og hægt er að panta miða í s. 5659000
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.