Eins og dyggir lesendur Pjattrófanna vita völdum við rétt fyrir áramót tvær konur til að fara í yfirhalningu .
Fyrir valinu urðu þær Hulda Kolbrún og Brynja en hvor um sig fékk m.a. mánaðarkort hjá Hreyfingu, út að borða á Gló í viku, dásamlegt dekur hjá Blue Lagoon Spa, klippingu og litun hjá Salon Veh og að lokum myndatöku hjá Úlfari Loga.
Þær eru að vonum endurfæddar eftir allt þetta dekur en þar var sitthvað sem kom á óvart. Báðar féllu algerlega fyrir fljótandi djúpslökun í Hreyfingu og segja þá upplifun hafa komið dásamlega á óvart. Eða eins og Hulda segir sjálf:
Djúpslökunin fannst mér algjör snilld. Ég vissi ekkert á hverju ég átti von, en hvílík hvíld sem maður fær út úr þessu. Tilgangurinn er algjör einvera og slökun í heitu vatni sem er passlega salt til þess að maður fljóti vel og svo er passað upp á að ekkert áreiti sé. Mér fannst ég svo slök í lokin, að ég hafði á tilfinningunni að ég myndi renna í gegnum niðurfallið ef ég færi ekki uppúr!
Hún segist líka hafa orðið yfir sig hrifin af andlitsbaðinu í Blue Lagoon Spa og gefur staðnum 12 stig af 10 mögulegum. “Get svo sannarlega mælt með honum!”.
Báðar dömurnar voru alsælar með matinn hennar Sollu á Gló:
“Bara að mæta, borða vel af hollum og dásamlega góðum mat, ekkert samviskubit og ekkert uppvask. Bara ef Solla vildi ættleiða mig,” segir Hulda sem bætir við að hún hafi fengið mikið og gott hrós fyrir útlitið eftir yfirhalninguna. “Ég hef víða fengið hrós á þessa flottu klippingu mína og strípurnar og kjóllinn sem ég féll fyrir, maður minn! Var í honum á söngtónleikum fyrir viku síðan við mikla hrifningu viðstaddra. Hefði aldrei valið kjólinn sjálf, en stílistinn Díana er snillingur – það verður ekki af henni skafið!”
Einfaldaðu fataskápinn
Sjálf leggur Díana Bjarnadóttir til að konur taki fataskápinn í gegn og einfaldi það sem er að finna. Við eigum allar að eiga frábærar buxur, vel sniðið pils sem hentar vextinum, svartan kjól, fallega dragt, góðan jakka og fimm toppa.
“Taktu þessar flíkur til og settu fremst í fataskápinn þinn ásamt toppum og fylgihlutum: töskum, skóm, skarti og sokkabuxum. Ef þú bara einfaldar fataskápinn þinn þá verður allt í himnalagi á morgnana. Munið bara eftir litunum og að hafa smá fjör í þessu.”
Díana bendir líka á hvernig hægt er að nota sömu flík við ólík tilefni. Jakki og buxur geta verið smart í vinnunni og ef þú ferð í leikhús eða út að borða um kvöldið þá er auðveldlega hægt að setja smá fjör í dressið með því að klæðast litríkum topp, skarti, fara í fallega skó og bera flotta tösku.
Langaði að gerbreyta Huldu
Hún segist hafa viljað draga fram kvenlegar línur Huldu sem hún faldi vel með skyrtu og vesti í sínum hversdagsklæðnaði:
“Mig langaði þvi til að gerbreyta Huldu og draga fram kvenleika hennar, sýna hennar fallegar línur sem hreinlega týndust í vestinu og buxunum. Ég valdi því að klæða hana í kjóla, til dæmis gráan kjól í anda Mad Men þáttanna. Þegar hún var komin í aðhaldsundirfatnað dró kjóllinn fram hennar kvenlegu línur. Kjólinn getur hún notað í vinnunni og parað með gollu og fylgihlutum en hann má einnig nota við fínni tilefni.”
Díana valdi einnig fallegar kápur handa Huldu, eina rauða og aðra svarta og aðsniðna sem einnig sýnir vöxtinn. “Allur fatnaðurinn gengur vel saman þannig að fataskápurinn er klár og hún getur því mixað peysnum og kjólunum við kápurnar og töskurnar og alltaf litið stórkostlega út.”
“Við konur erum mjög uppteknar þegar er unnið úti. Þá haldið utan um heimilið og börnin og svo sitjum við mömmurnar á hakanum. Margar konur gefa sér því miður ekki mikin tíma í dekur og yfirhalningu en óhætt er að segja að slíkt sé æðisleg fjárfesting fyrir andlega líðan og heilsu”.
Brynja ætlaði ekki að þora
Brynja Dögg er með svokallaðan stundaglasvöxt. Á hana valdi Díana meðal annars flottan, svartan blazer jakka, þröngar buxur og háa pinnahæla. Einnig litríkar sokkabuxur, blússu með tígrismynstri og fleira.
“Buxurnar sem ég valdi ganga við allt og geta orðið þessar ‘aðal buxur’ í skápnum. Brynja ætlaði ekki að þora að ganga í blússunni, fannst hún of djörf, en þegar hún fór loks í hana varð hún yfir sig hrifin. Brynja getur jafnframt blandað öllum fötunum sem ég valdi saman: verið í kápunni við kjólinn og/eða buxurnar, jakkinn gengur við kjólinn og buxurnar og vestið úr gervifeldi getur hún notað með litríkum toppum við buxurnar og/eða kjólinn.”
Díana tekur líka fram að réttur undirfatnaður skipti öllu máli. Hulda og Brynja fóru báðar í sérmátun í undirfatadeild Debenhams þar sem brjóstahaldarar og stuðningundirfatnaðaur var sérvalin á þær.
“Við konur erum mjög uppteknar þegar er unnið úti. Þá haldið utan um heimilið og börnin og svo sitjum við mömmurnar á hakanum. Margar konur gefa sér því miður ekki mikin tíma í dekur og yfirhalningu en óhætt er að segja að slíkt sé æðisleg fjárfesting fyrir andlega líðan og heilsu,” segir Díana að lokum.
Áhugasamar geta haft samband við Díönu í gegnum Pjattrófurnar á netfangið pjattrofurnar hjá pjatt.is. Fatnaðurinn var fengin að láni hjá Debenhams.
Tammtatamm…. hér koma myndirnar. Brynja og Hulda ‘before and after’ gerið svo vel!
_______________________________________________
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.