Hulda Kolbrún Guðjónsdóttir er 59 ára verkefnastjóri í skóla, mamma og amma. Hún eltist ekki við tískuna, kaupir sjaldan íslenska hönnun þó henni finnist margt í því vera fallegt og hennar helsta pjatt eru skartgripir.
Af hverju langaði þig að vera með í meikóver?
Það er frábært að fá góð ráð varðandi klæðaburð og útlit og svo veitti ekki af að fá spark varðandi hreyfinguna… og svo var svo margt freistandi í boði með þessu. Ég var þó ekki sú eina sem hló í sólarhring eftir að ég var valin – hef hingað til ekki verið talin mikil pjattrófa. En það er ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í þessu – ég er mjög þakklát fyrir valið. Allt þetta dekur hefur verið yndislegt!
Hefur orðið breyting á því hvernig þú hugsar um útlitið?
Jú, það getur alveg verið. Er maður ekki alltaf í speglinum? Reyndar gerði ég afskaplega lítið varðandi útlitið þegar ég var yngri – er nú farin að nota mikið meira af rakakremum, þannig að einhverjar framfarir hafa orðið hvað þetta varðar.
Kaupirðu almennt mikið af fötum?
Ætli ég kaupi ekki of mikið? Fataskáparnir eru að minnsta kosti fullir af fötum. En það er langt frá því að ég noti þau öll og kominn tími á tiltekt. Ég er þó lítið fyrir að eltast við tískuna og hef ekki heldur tímt að kaupa íslenska hönnun, þó margt sé ótrúlega fallegt.
Hvernig er þín daglega snyrtirútína?
Eftir sturtuna nota ég rakakrem á andlit og líkama. Set svo alla jafna á mig meik, maskara og smá varalit áður en lagt er af stað í vinnuna. Það kemur þó fyrir að ég gleymi að mála mig. Er stundum afskaplega viðutan. Á kvöldin er oftast hreinsað með geli og skrúbb eða vatni og grófum hanska. Ég set stundum á mig næturkrem, en ekki oft. Hárið þarf ég alla jafna að blása hvern morgun, það er svo lint og fíngert.
Notarðu reglulega maska eða spáirðu mikið í kremin þín?
Ég á mjög góða maska en nota þá ekki oft. Helst að ég noti rakamaskann. Ég hef viðkvæma húð og með ofnæmi fyrir ýmsu. Þess vegna spái ég talsvert í kremin og kaupi ekki hvað sem er.
Ferðu á snyrtistofur?
Ég fer reglulega í plokkun en annað ekki. Ég fór í annað skipti á ævinni í fótsnyrtingu í haust. Var svo vitlaus að mæta ekki í opnum skóm og endaði með “sokkafar” á nokkrum tánöglum, því snyrtifræðingurinn sendi mig út of snemma – taldi líklega að ég vissi hvað ég væri að gera – komin á þennan aldur..
…Ég vil þó leggja áherslu á að númer eitt fyrir hverja manneskju er að verða betri hvern dag og gera gott. Númer tvö er heilsan – næring, hreyfing, hreinlæti og góð hirða styður við góða heilsu. Svo má fara í útlitið og pjattið sem er bara skemmtilegt.
Ertu íhaldssöm þegar kemur að klippingum og hári?
Já, það er ég. Algengasta setningin sem heyrist frá mér í stólnum er: “Bara að særa”.. 🙂
Hvað með líkamsrækt, ertu dugleg að stunda hana?
Ég mætti vera mikið duglegri. Var algjör antisportisti áður og fannst ekki mikið vit í hreyfingu en viðhorfið hefur breyst með aldrinum. Nú verður maður að hreyfa sig – annað er ekki í boði! Ég er reyndar “styrktarfélagi” Rope Yoga setursins – alltaf á leiðinni og gef mér ekki tíma. Stundaði það vel fyrir nokkrum árum og fannst það gera mér afskaplega gott, en svo datt það niður út af ýmsum orsökum. Ég mætti líka fara oftar í sund og í gönguferðir. Ég er þó ánægð með að hafa stofnað gönguhóp í haust og göngum við einu sinni í viku eftir bókinni “25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu“. Það er frábært. Góðir félagar, góð hreyfing og fallegt umhverfi.
Hvað er markmiðið? Langar þig að missa einhver kíló?
Ég má alveg missa nokkur kíló – þarf að finna jafnvægi þar, því ég rokka upp og niður og það er dýrt að eiga föt í mörgum stærðum.
Og mataræðið… hvernig er það og hvað mætti betur fara?
Ég passa þokkalega upp á mataræðið. Fæ mér Herbalife-próteinhristing alla morgna og reyni að borða hollt yfir daginn – grænmeti, ávexti, fisk, kjúkling eða lambakjöt. Forðast t.d. unnar kjötvörur, brauð og pasta.
Þó er ég óttalegur nartari og sælgætisgrís – elska súkkulaði til dæmis. Þarf að hemja mig þar. Það er eilífðarverkefni, sýnist mér.
Skapa fötin konuna og á maður að passa sig að vera ekki “of fínn” eða er allt í lagi að leyfa sér smá glamúr á hverjum degi?
Fötin geta gert kraftaverk og að sama skapi gert mann háaldraðan! Einnig hef ég fengið betri afgreiðslu í verslunum ef ég er spariklædd.En ég er ekki sammála að fötin skapi konuna, því kona er persóna af holdi og blóði og aðalatriðið er að vera góð og heilsteypt manneskja. Þá skipta fötin ekki neinu máli. Aftur á móti skiptir máli að manni líði vel í því sem maður klæðist og fötin fari manni vel. Fáum er nákvæmlega sama um útlitið. Varðandi glamúrinn, þá hef ég haft sparifötin til spari og jafnvel endað með því að nota þau allt of sjaldan sem er ekki gott. En þarf ekki að vera einhver munur á því hvort maður er að fara í vinnuna eða út á lífið?
Heldurðu að þú verðir meiri pjattrófa eftir þetta?
Ekki gott að vita. En ég uppgötvaði línur sem ég vissi ekki að ég hefði og verð kannski óhræddari við að sýna þær. Ég vil þó leggja áherslu á að númer eitt fyrir hverja manneskju er að verða betri hvern dag og gera gott. Númer tvö er heilsan – næring, hreyfing, hreinlæti og góð hirða styður við góða heilsu. Svo má fara í útlitið og pjattið sem er bara skemmtilegt.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.