Um daginn prófaði ég svolítið sem ég hef aldrei gert áður en það var að láta dekstra við lúna og þreytta fætur eftir 2 vikna flutninga og málningatörn
Ég fór á Blue Lagoon Spa í Glæsibæ. Mætti snemma og var gefinn sloppur og handklæði og boðið að slaka á í kísilgufunni áður en tíminn átti að hefjast.
Gufubaðið er notalegur klefi sem rúmar tvo en sem ég var ein með og mér var gefin skál með kísilleir til að bera á mig í gufunni, það var vægast sagt notalegt að sitja þarna inni í frísklegri mentol gufu og bera á sig leir frá hvirfli til ilja og leyfa honum að endurnæra húðina, eftir tuttugu mínútur fer svo sturta í gang sem minnir á “tropical rain” og skolar burtu leirinn.
Persónulega er ég eldheitur aðdáandi leirsins úr Bláa lóninu. Um daginn fékk ég í fyrsta skipti á ævinni svona harða „nabba“ sem líkjast gæsahúð á bakið og kálfana og það eina sem hefur virkað er að skrúbba svæðin með kísilleirnum úr Bláa lóninu og bera á mig penzim eftirá, þessvegna get ég svarið fyrir að þessi kísilleir er kraftaverk!
Endurnærð og slök úr gufunni mætti ég svo til Söru í fótsnyrtingu. Var fyrst sett í fótabað til að mýkja húðina og slakaði á með slúðurblöð á meðan. Svo bar Sara kísilmaska á fæturna og nuddaði alla dauða húð burt í leiðinni, svo tóku við allskonar fíneríis tæki til að fjarlægja sigg og naglabönd. Þar sem ég er mjög kitlin á fótunum mátti ég stundum hafa mig alla við að vera kyrr og við og við gat ég ekki annað en skellt upp úr sem hlýtur að vera allt í lagi því hláturinn lengir lífið.
Eftir að Sara var búin að gera fæturnar voða fína bar hún á mig rakakrem og gaf mér fótanudd í leiðinni. Það var hrikalega notalegt og ég er ekki frá því að hafa dottað á meðan. Að lokum pakkaði hún fótleggjunum inn í heitan bakstur á meðan hún lakkaði táneglurnar með eldrauðu naglalakki sem ég valdi og svo sat ég bara í þessum notalega stól með róandi tónlist á meðan lakkið þornaði og fannst dásamlegt að vera „neydd“ í 2 tíma slökun eftir 2 vikna álagstörn.
Ég hefði ekki getað trúað því hvað það er notalegt að vera laus við harða tábergið sem fylgir margra ára ofnotkun á háhæluðum skóm og fætur mínir hafa aldrei verið jafn fínir og flottir með eldrautt naglalakk í stíl við nýja svefnherbergisvegginn minn 😉
Næst ætla ég að taka vinkonu með og mæli sannarlega með þessu í vinkonugjöf eða að nokkrar fari saman, það er auðvelt að láta heilan eftirmiðdag líða þarna í gufu, heitum pottum og meðferðum með góðu girl-talk þess á milli.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.