Nýlega nálgaðist mig stelpa sem langar að verða fyrirsæta og vantar að fá ráð og hjálp til að koma sér af stað. Í fyrstu sló það mig hvað stelpan er ung, hún er nýfermd, fædd 1996, en svo hugsaði ég tilbaka, ég var líka nýfermd þegar ég var “uppgötvuð” og steig mín fyrstu spor sem fyrirsæta og mér fannst ég sko alveg tilbúin í þetta og alls enginn krakki, eða hvað?
Fyrir stelpuna sem hafði samband við mig skrifaði ég niður reynslu mína og mig langaði að deila nokkrum meginráðum sem ég fékk úr þeirri reynslusögu, svona bæði fyrir mæður stúlkna sem eiga sér þennan draum og fyrir stúlkurnar sjálfar:
Kröfurnar eru gífurlegar, í 99% tilvika eru tískumódel 174-182 cm á hæð og með málin 90-60-90 cm eða minna (brjóst-mitti-mjaðmir). Ef ummálin fara yfir þetta þá passar þú líklega ekki í sýningarflíkurnar.
Þær örfáu undantekningar á þessu eru petit model sem þá eru minni og grennri, 164-174 á hæð og þær geta fengið vinnu á Asíumarkaði eða “plus-size” model sem þurfa þá að vera hávaxnar 174-182 cm og í fatastærð 14-16. Það eru bara órfáar plus-size fyrirsætur sem ná að vinna fyrir sér því eftirspurnin er ekki mikil.
Þetta eru kaldar staðreyndir fyrir þær stelpur sem passa ekki í þetta mót, annað hvort of lágvaxnar eða of breiðar fyrir tískubransann en of grannar fyrir plus-size bransann. Þær stelpur hafa þó þann kost að vera “glamúr-fyrirsætur” þ.e.a.s. “commercial” eða sexý fyrirsætur eins og Ásdís Rán. Glamúr-fyrirsætur eru ekki í tískubransanum en hafa þó margar nóg að gera í bíla- ís- og undirfataauglýsingum t.d. svo ekki sé minnst á karlatímaritin. Þennan bransa þekki ég hinsvegar ekki og hef því engin ráð að gefa varðandi hann sérstaklega en get þó sagt það að ef tískubransinn er varhugaverður þá er “glamúr-bransinn” en varhugaverðari..
En ég ætla að miðla af eigin reynslu: Ef þú ert 14-20 ára, 174-182 á hæð og með ummálin 90-60-90 eða minna þá átt þú góðan séns á að vera fyrirsæta. Ef þú ert breiðari en þetta þá myndi ég láta þennan draum eiga sig og finna mér annann því ef þú ert ekki svona grönn að eðlisfari á þessum aldri þá myndi ég aldrei ráðleggja þér að reyna að verða það. Það hefur aldrei farið vel.
Umboðsmaður á Íslandi
En passaðu þig að sá umboðsmaður sé ekki að reyna hafa af þér peninga, t.d. ef þér er boðið að fara í módelkeppni sem þú átt að greiða fyrir sjálf, slíkar keppnir eru alltaf plat. Í alvöru keppnum er allt greitt fyrir þig en hafðu í huga að þú þarft ekki að fara í keppni til að vinna sem fyrirsæta. Það er í lagi að greiða fyrir fyrirsætunámskeið því á þeim lærir þú að ganga, pósa, farða þig og færð grunn upplýsingar um hvað starfið snýst. Einnig er í lagi að greiða sjálfur fyrir myndatökur til að safna í möppu (portfolio) en þó ekki nema fyrir 1-2 myndatökur það ætti að vera nóg til að kynna þig og útvega þér verkefni og umboðsaðila erlendis ef þú hefur það sem til þarf.
Að vinna hér heima getur verið góð reynsla og fín leið til að safna í möppu en umboðsmaður þinn kemur þér á fund við erlenda umboðsmenn (scouts) sem hingað koma reglulega í leit að nýjum andlitum.
Erlendir umboðsmenn:
Ég skrifaði heila ritgerð um hvað ber að vara sig á og meginatriðin úr henni eru:
Ef umboðsskrifstofan býður þér út en vill að þú greiðir eitthvað sjálf þá átt þú að afþakka!
Almennileg umboðsskrifstofa sem hefur trú á þér leggur út fyrir kostnaði, flugi, myndatökum, setcards (kynningarkort með myndum af þér ásamt hæð, háralit, augnlit og ummálum í cm) hún reddar þér húsnæði og vasapening og þú greiðir þeim þetta svo tilbaka þegar þú færð vinnu.
Ef þú ert komin í samningaviðræður og ert ung að árum þá á umboðsskrifstofan eftir að reyna sannfæra foreldra þína um að það verði fylgst vel með þér að þú farir ekki út á kvöldin o.sv. fr.v.
Sem foreldri þá myndi ég ekki treysta þessu. Ég hef ekki orðið vitni að því að módelskrifstofur úti í heimi vakti módelin sín neitt sérstaklega en hef heyrt af umboðsaðilum í Asíu og USA sem gera það eftir fremsta megni. Ég myndi fara út með dóttur minni ef hún væri yngri en 18 ára til að passa upp á hana og vera henni til halds og trausts til að byrja með. Almennileg umboðsskrifstofa myndi líka skilja það vel og búa þannig um hnútana að foreldri geti verið hjá dóttur sinni.
Þetta eru bara svona örfá atriði og ég gæti sagt svo miklu meira um bransann, hvað ber að varast ofl. Sjálf fór ég út til Milanó að vinna eftir 10 bekk og vann víðsvegar um Evrópu og NYC næstu 3 árin og komst að þessu öllu “the hard way”. Þetta er eins og að kasta lambi fyrir úlfa og fyrirsætan verður að vera sjálfstæð, örugg og heil manneskja til að þola þetta.
Ég mætti erfiðleikum og hindrunum en öðlaðist ómetanlega reynslu, sá heiminn, kynntist áhugaverðu og skemmtilegu fólki og lærði að standa á eigin fótum og bjarga mér hvar sem er. Sumar stelpur upplifa svipað við að vera au-pair, ég leit á þetta sem ævintýri fremur en framtíðarstarf.
Til að fá frekari upplýsingar þá megið þið skilja eftir spurningar í kommentakerfi eða senda mér mail, hér eru líka gagnlegir punktar.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.