Þegar settir eru saman ostabakkar er gott að hafa í huga að mismunandi ostar passa misvel saman. Þannig er t.d. gott að setja saman á bakka til dæmis Dala-Brie, Kastala, Búra, Óðalsost, Gullost og Gráðaost.
Hafa þarf samt í huga að hafa tegundirnar ekki of margar og betra er að hafa fáa en vel valda osta. Þegar mygluosta er neytt er best að taka ostana úr kæli 1-2 tímum áður en samsætið byrjar.
Þegar þeir eru svo bornir fram þarf að hafa sérhníf í hverjum osti svo þeir mengist ekki hver af öðrum. Ávextir eins og vínber, epli og perur passa vel með ostum sem og kex og brauð. Einnig er vinsælt að bera fram mygluosta með sultu eða hunangi.
Rauðvín er oft drukkið með mygluostum en margir telja að hvítvín passi betur ostum. Þurrt freyðivín og kampavín ásamt ýmsum sætum vínum passa ennfremur vel með mygluostum en á síðustu árum hefur einnig færst í vöxt að drekka bjór með ostum.
Að kaupa nokkra ljúffenga osta og setja fallega saman á trébakka eða disk er frábær og fljótleg leið til að lífga upp á heimboðið eða samsæti á vinnustaðnum, elegant síðdegis á föstudögum í vetur.
Í sumar fengu tveir ostar úr Dölunum nýtt útlit en það voru brie ostarnir Dala-Brie og Bóndabrie. Brie ostar eiga sér langa sögu en þeir eru kenndir við Le Brie héraðið í Frakklandi og eru fyrstu heimildir um ostinn frá árinu 1217.
Dala-Brie á sér hinsvegar um þrjátíu ára sögu hérlendis en hann hefur verið framleiddur í Búðardal frá árinu 1982. Fáeinum árum síðar hófst svo framleiðsla á Bónda-Brie.
Brie ostarnir eru mildir hvítmygluostar sem eru mjúkir í gegn án kjarna og eru sjálfsagðir á ostabakkann (en líka æðislegir á hamborgara með parmaskinku þó það sé önnur saga). Gott er að dýfa hnífnum í heitt vatn áður en osturinn er skorinn til að hann festi sig ekki við hnífinn.
Við mælum með að prófa sig áfram með ostana og vera ekki feiminn að smakka þó að orðið ‘mygla’ komi fyrir. Gúrmei bragðið getur leynt á sér en ef þú ert einu sinni orðin háð slíku góðgæti er ekki aftur snúið – enda það sem við köllum ‘fullorðins’.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.