Í janúar 2011 hófu Björn Steinar, Garðar Stefánsson og Yngvi Eiríksson að búa til salt.
Það sem gerir þetta í frásögur færandi er að saltið er unnið eftir aðferð frá 18. öld þar sem hveravatn er notað sem orkugjafi.
Fyrirtækið er staðsett á Reykjarnesi í Ísafjarðardjúpi en þar var fyrsta saltverksmiðja Íslands starfrækt á 18. öld fjármögnuð af danska konungnum og hét verksmiðjan Reykjanessaltverk en nýstofnaða fyrirtækið dregur nafn sitt af því og nefnist Saltverk Reykjaness.
Til að framleiða kristalsjávarsalt þarf að hægsjóða sjó í þónokkurn tíma en ferskum sjó er dælt beint úr Ísafjarðardjúpi þannig að varan er eins fersk og hún getur orðið.
Saltverk Reykjaness er með skemmtilega heimasíðu þar sem hægt er að fylgjast með framleiðslunni en eftir að ég prófaði saltið þá er ekki spurning að ég muni kaupa vöruna aftur þar sem hún er góð, stenst algjörlega samanburð við maldon- og himalaya saltið ásamt því að vera 100% íslensk vara sem við getum verið stolt af.
Hver veit nema salt verði aðal útflutningsvaran okkar í framtíðinni, við eigum a.m.k. nóg af því í sjónum og maturinn verður miklu betri með því að dreifa yfir hann gæðasalti.
Upplýsingar um vöruna voru teknar af heimasíðu Saltverks
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.