Vissir þú að það eru nokkrar kenningar uppi hvernig tapas varð til en tapas eru smáréttir sem njóta töluverða vinsælda hér á landi.
Ein kenning er sú að samkvæmt goðsögninni hófst tapas hefðin þegar Alfonso tíundi, konungur frá Castile var að jafna sig eftir sjúkdóm. Þá byrjaði hann að drekka vín og smárétti milli mála og þegar hann endurheimti heilsu sína leyfði hann ekki ölstofum að bera fram vín nema viðskiptavinurinn fengi snarl með eða “tapa”.
Ástæðan fyrir því að konungurinn setti fram þessa reglu var gerð í varúðarskyni til að vinna gegn áhrifum áfengis og í raun neyða fólk til að fá sér næringu en upphaflega voru tapas réttirnir endurgjaldslausir sem leiddi af sér að auralaust fólk fékk fyllingu í magann með vínsopanum.
Önnur kenning er sú að tapas var notað til að setja ofan á vínglasið til að halda sandi í burtu en var það Alfonso tólfti sem pantaði fyrsta “tapa” til að hylja vínglasið sitt eftir að hafa fengið sand ofan í glasið sitt. Orðið tapa á spænsku þýðir einmitt lok, tappi eða spjald.
Þriðja kenningin er sú að bændur í gamla daga unnu langa vinnudaga og fengu sjaldan góðar pásur en til þess að geta notið þess að drekka vín og borða mat á vinnutíma, fengu þeir sér tapas rétti sem voru ólífur, ostur, skinka eða reykt pylsa.
Reyndar er ein kenning í viðbót og er hún kannski sennilegust en er hún sú að tapas hafi verið fundið upp af því að ávaxtaflugur sóttu mikið í vín hjá fólki og var þar af leiðandi notað brauð til að hylja glasið. Seinna meir fóru veitingahúsin að skreyta brauðið og byrjaði þá hefðin að bera fram tapas rétti með víninu.
Það er kannski sniðugt næst þegar maður heldur matarboð að skenkja í glösin og hafa fallegt tapas ofan á glasbrúninni sem forrétt.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.