Sætkartöflulasagna með nautahakki, pestó, parmesan og spínati

Sætar kartöflur eru guðdómlegar. Svo ljúffengar, girnilegar og hollar.

Fullar af  trefjum, próteini, járni, kalki og A og C-vítamíni svo eitthvað sé nefnt. Og ekki skal gert lítið úr fallegum litnum og áhrifum hans á hvert matarborð.

Því eins og við vitum er skemmtilegra að setjast að snæðingi þegar maturinn á diskunum er litríkur og fallega á borð borinn heldur en ef pottunum með einhverri kássunni er slengt á matarborðið.

Ég er einfaldlega heilluð af sætum kartöflum í matargerð og reyndar er líka gaman að nota þær í bakstur og eftirrétti.

Því nota ég hvert tækifæri til að bjóða upp á þær í ýmsum myndum.

Hér er ein tillaga að girnilegum og gómsætum rétti sem fjölskyldan fellur fyrir, því mín reynsla er að börn eru sérlega hrifin af sætu kartöflunum góðu.
  • 500 g nauta- eða lambakjötshakk
  • 2 stórar sætar kartöflur
  • 3 msk. rautt pestó
  • 2 msk. tómatkraftur
  • 300 g spínat
  • rifinn ostur, helst parmesan
  • salt og grófmalaður pipar
  • rósmarín, ferskt eða þurrkað
  • 1-2 tsk. smjör

Sneiðið sætu kartöflurnar helst á lengdina og hafið sneiðarnar um 1 sm þykkar. Skrælið og sjóðið í 8-10 mínútur í léttsöltu vatni. Brúnið hakkið á pönnu, saltið, piprið og kryddið að smekk með rósmaríni (sem gefur yndislegt bragð í þennan rétt.) Blandið tómatmauki og pestói vel saman við hakkið. Hitið spínatið á annarri pönnu í bræddu smjöri í nokkrar mínútur og hellið soðinu síðan af.

Ég er einfaldlega heilluð af sætum kartöflum í matargerð og reyndar er líka gaman að nota þær í bakstur og eftirrétti.

Setjið síðan 1 lag af sætkartöflusneiðum í ofnfast mót, stráið örlitlum osti þar yfir. Dreifið síðan spínati þar ofan á og loks hakkinu. Raðið síðan hráefninu upp þannig koll af kolli, eins og við lasagnagerð,  og endið á sætum kartöflum. Stráið smá osti yfir og bakið í 20 mínútur við 200 gráður. Berið fram með grænu salati.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: Sætkartöflulasagna með nautahakki, pestó, parmesan og spínati