Nú er tími Rabarbaranna alveg að renna upp… eða rabbabbaranna eins og ég hélt það væri skrifað. Ekki vissi ég af þessu auka R-i og eina B-i fyrr en fyrir ári síðan.
Eins og þú veist eru sultur uppfullar af sykri, sem er svo sem í lagi þegar maður fær sér eina tsk. á brauðið, en ef til vill er um annað að ræða þegar manni langar í nýja Hjónabandssælu.
Ég skrapp á vef Cafe Sigrúnar og fann hjá henni Rabarbarasultu sem er næstum því sykurlaus en í staðinn fyrir hvíta sykurinn notar hún agavesýróp og döðlur en þær eru dísætar og góðar.
Ég sver það, það tók 30 mínútur að gera sultuna! Suðutíminn var 20 mín og það fóru 5 mín í að skera rabarbarann og döðlurnar og henda þessu í pott, svo tók aðrar fimm mínútur að skella þessu í krukkur. EKKERT MÁL!
Ég held ég hafi varla búið til eins sykurlausa sultu á ævi minni! Döðlurnar sæta hana sjúklega mikið og svo er agave sýróp til að sæta hana aðeins meira en ég bætti að sjálfsögðu við kanil, þar sem ég er kanilsjúk.
Vissir þú annars að rabarbari er grænmeti og hann er sjúklega C-vítamínríkur! og inniheldur trefjar.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.