Ég rakst á uppskrift að Oreo ostaköku. Ég stóðst ekki mátið og varð að prufa hana enda Oreo kex mitt uppáhalds og ekki eru ostakökur verri.
Hún er mjög sæt, svo maður þarf ekki mikið af henni, en bragðast dásamlega með heitu kaffi eða ískaldri mjólk.
UPPSKRIFT
- 1 bolli flórsykur
- 200 gr. rjómaostur (mjúkur)
- 1 bolli nýmjólk
- 1 pakki af vanillu Royal búðingi
- 1 tsk. vanilludropar
- 1 peli af rjóma
- 2 pakkar af Oreo kexkökum þ.e.a.s. 32 kökur
AÐFERÐ
Blandaðu saman flórsykrinum (gott er að sigta hann fyrst) og rjómaostinum (ég notaði hrærivél).
Næst tekuru aðra skál og þeytir í henni rjóma. Svo bætirðu við nýmjólk,vanilludropum og vanillubúðingsduftinu (ath ekki að búa fyrst til búðing). Þessu skal öllu blanda saman varlega.
Svo skal blanda saman þessari blöndu við flórsykursrjómaostablönduna og hræra varlega en vel saman.
Næst eru teknar 20 Oreo kexkökur og þær eru brotnar niður í stóra bita og blandað saman við.
12 Oreo kexkökur eru brotnar niður og settar neðst í formið sem þú ætlar að setja kökuna í.
Svo helliru Oreo ostablöndunni yfir og setur í ískáp í 2-3 klst. Einnig er gott að geyma hana inni í ískáp yfir nótt en þá verður hún mjúk.