Nú er ferskt íslenskt hráefni í öndvegi í eldhúsum landsmanna. Á uppskeru- og sláturtímum eru verslanir fullar af slíku góðgæti sem enginn fær staðist.
Í þessum rétti, sem er líka í bókinni minni Eldað af lífi og sál, er það lambakjötið okkar góða sem er í aðalhlutverki ásamt dásamlegum íslenskum gulrótum. En við samsetningu kryddanna sem notuð eru verður rétturinn undir áhrifum frá afrískri matargerð.
Kryddin kummin og turmerik gefa einstakt bragð og fara afar vel með lambakjötinu og gulrótunum. Það er tilvalið að bæta við grænmetið í réttinum og nota uppskeruna, sbr. rófur, fenniku eða blómkál. Þá má bara minnka kjötmagnið. Kúskús setur punktinn yfir i-ið sem meðlæti en auðvitað má bera fram kartöflur eða hrísgrjón með réttinum.
Hér er fleiri uppskriftir mínar að finna þar sem nýtt, íslenskt grænmeti er í hávegum haft, úr þættinum Ísland í dag á Stöð 2 sl. föstudag.
Ég býð upp á enn fleiri haustkræsingar í sama þætti í kvöld á Stöð 2 – endilega fylgist með!
- 600 g lambakjöt, t.d. gúllas, skorið í hæfilega bita
- 1 msk. ólífuolía eða vínberjasteinaolía
- 1 laukur, grófsaxaður
- 150 g tómatar,niðursneiddir
- 2 gulrætur, niðursneiddar
- 2 dl kjúklingasoð
- 1 ½ tsk. kummin
- ½ tsk. turmerik
- ¼ tsk. rauður pipar (má sleppa)
Mýkjið laukinn í ólífuolíu á stórri pönnu. Skerið kjötið í hæfilega bita og bætið því á pönnuna og látið brúnast. Bætið síðan gulrótum og tómötum út á, látið malla saman í 3-4 mínútur. Hellið kjúklingasoði og kryddi út á pönnuna og láta malla við mjög vægan hita í 10-15 mínútur eða þar til kjötið er fulleldað. Berið fram með kúskúsi og tómata- og paprikumauki.
Kúskús (couscous)
Þegar ég flutti úr foreldrahúsum á sínum tíma var kúskús eitt af því sem ég féll fyrir í eigin eldhúsi og var óþreytandi að prófa mismunandi rétti þar sem kúskúsið var í aðalhlutverki. Ég man eftir tímabilum þar sem ég eldaði nóg af því og átti tilbúið í ísskápnum og bætti svo ýmsu við það einkum grænmeti og blandaði gjarnan út í hefðbundin salöt. Ég nota kúskús enn mikið með alls kyns mat og í salatrétti, eða sem meðlæti í stað kartaflna eða hrísgrjóna. Það tekur ekki nema nokkrar mínútur að elda kúskús og því gott að grípa til þess í dagsins önn. Kúskús eru kurluð grjón úr dúrumhveiti, fitusnautt og vítamínríkt.
- 2 dl kúskús grjón
- 2 dl kjúklinga- og grænmetissoð
- 1 tsk. smjör
- ½ msk. ólífuolía, má sleppa
- kryddað að smekk, td. grænmetiskrydd, rúsínur, fræ, sítrónubörkur
Setjið kúskús í skál og hellið sjóðandi grænmetissoði , sem bætt hefur verið smjöri út í, yfir. Setjið lok eða plastfilmu yfir og látið standa í 4-5 mínútur, þar til kúskúsið hefur dregið í sig allan vökvann. Hrærið kúskúsið upp með gafli, þannig að það loði ekki saman. Bætið örlítilli ólífuolíu saman við ef þið viljið. Kryddið að smekk og/eða bætið t.d. rúsínum, fræjum eða rifnum sítrónuberki út í.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.