Fyrir þremur árum var mér kennt að setja kalkún í pækil fyrir jólin. Mér leist ágætlega á hugmyndina og hófust miklar pælingar hvernig ætti að koma heilum kalkún fyrir í legi.
Eftir að hafa dregið út alla potta og föt út úr eldhússkápunum var ákveðið að arka í Húsasmiðjuna og kaupa skúringafötu undir kalkúninn þar sem ílátin í eldhúsinu voru ekki nógu stór.
Heldur þú ekki að fatan hafi virkað svona ljómandi vel og síðan þá hef ég sett jóla- og páskakalkúninn í pækil með þeim tilgangi að gera hann aðeins meira djúsí og fá meira bragð í kjötið.
Hér er uppskriftin mín:
- 250 g gróft salt
- 100 g sykur
- 3 msk oregano
- 3 msk timian
- 1 kanilstöng
- 2 tsk pipar
- 3 cm engiferrót
- 1 tsk chilipipar
- 1 dl vatn
- 3 l eplasafi
- 3 msk sítrónusafi
Ég helli öllum vökvanum í fötuna og hendi svo kryddinu út í. Set kalkúninn ofan í og ef mér finnst vanta meiri vökva þá set ég annaðhvort meira vatn eða eplasafa. Þannig að ef þú ert með stóra fötu og stóran kalkún þá er sniðugt að kaupa 2 l meira af eplasafa. Það er mikilvægt að vökvin nái upp fyrir kalkúninn svo hann drukni í pæklinum.
Undanfarin jól hef ég verið heppin og getað sett kalkúninn í pækilinn og geymt út á svölum og vonandi fáum við önnur þannig jól, en það sparar töluvert pláss í ísskápnum. Ég hef lesið á netinu að hægt er að hafa kalkúninn í pæklinum í tvo sólahringja, en ég hef látið duga einn, aftur á móti er nauðsynlegt að taka kalkúninn upp úr fötunni 3 tímum fyrir eldun svo hann sé búinn að ná stofuhita áður en hann er settur inn í ofninn.
Ertu búin að skoða færsluna “Að elda kalkún” og “Kalkúnafylling” ?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.