Það sem mér þykir svo yndislegt við sumrin er að það er ekkert mál að koma við í búðinni, grípa kjúkling eða kjöt skella á grillið, kaupa kaldar sósur og gera kvöldmatinn á núll einni.
En mér finnst sósurnar sem eru á markaðnum vera frekar í óhollari kanntinum, sumar með aukaefnum, aðrar með mikilli fitu og oft hreinlega bara ekki góðar.
Ég er aftur á móti búin að finna hina fullkomnu sósu fyrir fjölskylduna mína þar sem öllum finnst hún góð og má segja að hún sé í hollari kanntinum svona ef maður miðar við majonessósurnar með kryddunum sem innihalda allskonar aukaefni sem við vitum ekki almennilega hver eru.
Það sem ég geri er að kaupa 10% sýrðan rjóma, skoppa svo út á svalir og ná mér í graslauk, kóríander og myntu, hræri saman við sýrða rjómann, bæti við 1/2 tsk af sítrónusafa og 1/2 tsk af sojasósu og bingó komin þessi fína grillsósa með kjötinu eða út á salatið.
Það er einnig gott að hafa bara graslauk, eða graslauk og kóríander, graslauk og myntu, eða bara einhvernvegin eftir því hvaða stuði maður er í, en galdurinn er aftur á móti sojasósan sem gerir þetta extra bragð sem sósan þarfnast.
Ef þú ert að rækta þínar eigin kryddjurtir þá mæli ég eindregið með að prófa að gera sína eigin kalda sósu með kjötinu á grillið en það er ekkert mál að rækta graslauk úti á svölum ásamt öðrum kryddjurtum eins og kóríander, myntu og steinselju.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.