Síðasta sumar gerði ég tilraunir með að grilla pizzu beint á grillteinana og lukkaðist það ljómandi vel. Reyndar var grillið mitt orðið svo lélegt að ég gat ekki stillt hitann nógu vel, þannig að ég bakaði oft botnana á grillinu og henti svo pizzunni inn í ofninn.
Þar sem fjölskyldan var mjög hrifinn af þessari nýju aðferð að gera pizzur var ákveðið að fjárfesta í grillstein í Bauhaus (en ekki hvað!) og prófaði ég að grilla pizzurnar á steininum um helgina
Namm namm namm! Svei mér þá ef ég hætti ekki bara að panta pizzur. Ilmurinn sem kom frá grillinu var unaður. Það var eins og ég væri komin inn á besta pizzustað í borginni.
Þú getur auðveldlega notað uppáhalds pizzuuppskriftina þína en ég bjó til botninn úr fínu og grófu spelti, vatni, geri, olíu og hrásykri.
Hlutföllin voru einhvernvegin svona:
500g volgt vatn
1 pakki þurrger
1 tsk hrásykur
2 msk ólífuolía
Öllu þessu blandað saman áður en þú notar spelt eftir þörfum en deigið ætti að duga ofan í 4-6 manns.
Gott er að láta pizzuna standa í 5 mínútur áður en þú skerð hana svo hún jafni sig og áleggið fari ekki út um allt.
Ef þú hefur áhuga á að grilla pizzu eru til ótal mörg YouTube myndbönd með allskonar aðferðum en það eina sem þú þarft að gera er að gúggla Grilled Pizza YouTube og myndbanda möguleikarnir eru endalausir.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.