Undanfarið hef ég verið að gera allskonar tilraunir í eldhúsinu eða réttara sagt úti á svölum þar sem ég fjárfesti um daginn í nýju grilli sem hefur gert mikla lukku á heimilinu.
Ég keypti mér grill sem bíður upp á þann möguleika að skipta út hefðbundnu grillgrindinni fyrir grillplötu og hef ég algjörlega fallið fyrir þessari samsetningu á grilli þar sem ég get á auðveldan hátt steikt grænmeti, kartöflur og fleira gúmmilaði sem dettur annar á milli teinanna ef þeir væru á þeim.
Í vikunni prófaði ég að grilla Naan brauð, en ég hafði kjúkling sem ég var búin að láta liggja yfir nótt í tandoori kryddi, engiferi, sítrónu, hvítlauk og ediki og fannst mér upplagt að hafa hvítlauks Naan brauð með.
Það kom mér á óvart hversu einfalt það var að grilla Naan brauðið og hversu líkt það var brauðunum á veitingarstöðum en ég notaði uppskrift frá Yesmin og get ég mælt með þessari uppskrift, en eins og þú veist eflaust er Yesmin listarkokkur.
Uppskriftina fékk ég úr bókinni Framandi & Freistandi – indversk og arabísk matreiðsla en einnig er hægt að nálgast uppskriftina á RUV (sleppir bara súkkulaðinu og rjómaostinum).
Ég mæli með að prófa sig áfram í grillmennskunni en það sem mér finnst svo frábært við að grilla er að eldhúsið helst hreint og fallegt ásamt því að uppvaskið verður ekki eins mikið.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.