Jólaundirbúningurinn á heimilinu er í fullum gír. Við ákváðum tíu dögum fyrir jól að taka baðherbergið í gegn, þannig að það er allt á hvolfi heima, en við erum voða slök eitthvað og erum sannfærð um að allt náist fyrir jól.
Málarinn kemur í kvöld, vaskur og hillur fara upp á fimmtudaginn þannig að þetta smellur allt saman þegar stóra kvöldið kemur.
En þrátt fyrir breytingar á heimilinu þá verður nú að halda í hefðirnar góðu og í kvöld nýttum við okkur hitaskotið sem er úti og bökuðum út á svölum flatbrauð fyrir hangikjötið sem við fáum okkur í hádeginu á aðfangadag.
Það er mikil stemning að gera flatbrauðið, en þar sem kemur ótrúlega mikið sót við steikinguna þurfum við að baka brauðið út á svölum. Tengdapabbi tengdi rafmagn út á svalir fyrir okkur einhver jólin en við notum rafmagnshellur til að steikja brauðið.Verkaskiptingin er skýr hjá okkur turtildúfunum og geri ég deigið ásamt því að fletja það út og kallinn stendur út á svölum (og skelfur) og steikir.
Hér er uppskrift af flatbrauði ef þig langar til að prófa en það er einstaklega gott með smjeri og hangikjöti *mmmm*
3 bollar hveiti
3 tsk lyftiduft
1 msk sykur
1/2 tsk salt
3,5 – 4 dl mjólk
Hræra lítið saman, skipta í 10 bita og steikja á pönnukökupönnu (út á svölum). Gott er að stinga brauðið með gaffli á meðan verið er að steikja það.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.