Um helgar er tilvalið að láta hugmyndaflugið ráða þegar kemur að því að útbúa fallegan morgunmat.
Það þarf ekki endilega að þýða að þú kastir hollustunni út um gluggann, hafragrautnum í tunnuna og takir upp kókópuffsið, heldur bara nostra aðeins við morgunmatinn og bera hann fallega fram í rólegheitum um leið og þú tekur einn andardrátt í einu.
Ég geri mér oft eggjabrauð í morgunmat, hitaeiningafjöldinn hentar mér, ég fæ prótein, kolvetni, yfirleitt ávöxt með og þessi skammtur dugar mér þar til ég fæ mér hádegismat seinna um daginn.
Um helgina langaði mig í fegurð, þannig að ég skar þykkari sneið en ég er vön af brauðinu , setti tvö egg út í, steiki á vægum hita á pönnu upp úr 1 tks. kókosolíu og örlitlu af vanilludropum. Dreifði svo nýtýndum bláberjum á disk, eggjabrauðið ofan á, notaði restina af egginu til að búa til rós, náði mér í heimatilbúið bláberjasaft (án sykurs) og notaði sem sósu, dreyfði svo ööööörlitlum flórsykri ofan á til að fá smá lit og rjúkandi kaffibolli við hliðina á.
*ahhhh*, það tók mig smá tíma bara að dást að þessu, svo naut ég hvers bita fyrir sig…. Ljómandi góð byrjun á deginum….
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.