Nýjar íslenskar gulrætur eru alltaf jafn kærkomnar og nú eru margir að taka upp úr matjurtagörðum sínum brakandi ferskar og dásamlegar gulrætur.
Á þessum árstíma eykst jafnframt stemningin fyrir yljandi og ljúffengum súpum af ýmsum gerðum og þá er auðvitað tilvalið að nota nýja og ferska grænmetið í súpugerðina.
Gulrótarsúpan góða með vænum slatta af fersku engiferi er fremst á meðal jafningja á mínum borðum. Svo fallega gul og frískleg, stútfull af gulrótum, og auk engifersins, hvítlauk og fleira góðgæti sem er okkur svo hollt og gott. Bara anganin af engiferinu í súpunni hressir okkur og frískar en það er löngum þekkt fyrir að hafa góð áhrif á skap og líðan! Súpan er einföld og fljótleg í matreiðslu og geymist vel í nokkra daga í ísskáp. Uppskriftin er miðuð fyrir fjóra til sex.
- 2 msk. ólífuolía
- 1 laukur, smátt saxaður
- 1 tsk. karrí
- 4 hvítlauksrif, marin
- 3-5 cm fersk engiferrót, smátt söxuð
- 500-600 g gulrætur, saxaðar gróft
- 1 lítri kjúklinga- eða grænmetissoð
- 1 lítil dós kókosmjólk (165 ml) (má sleppa)
- salt og grófmalaður pipar
- ferskt kóríander (ef vill)
- límónusafi ( ef vill)
Hitið ólífuolíuna í potti við miðlungshita og mýkjið lauk, hvítlauk og engifer í henni í nokkrar mínútur. Kryddið með karríi. Bætið síðan soðinu útí og gulrótunum og látið malla við vægan hita í um 25 mínútur. Setjið síðan súpuna í matvinnsluvél eða notið töfrasprota beint í pottinn og maukið þar til verður að nokkuð sléttri og fallegri súpu. Bætið þá kókosmjólkinni saman við en við það að hafa hana í uppskriftinni verður súpan silkimjúk og kremkenndari og yndislegur kókoskeimur kitlar einnig bragðlaukana.
Gott er að strá ferskum kóríanderlaufum og dreifa nokkrum dropum af límónusafa yfir hverja skál þegar súpan er borin fram.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.