Ungir sem aldnir una sér þessa dagana í berjamó og er líklegt að kæli- og frystiskápar séu víða að fyllast af þessari dásemd sem berin okkar eru. Berjabláar varir og fingur fylgja árstíðinni og þessari stemningu. Ber ýmis konar eru afar holl og sérstaklega eru bláber rík af andoxunarefnum og því talin til svokallaðrar ofurfæðu.
Berin eru frábær í ýmsan bakstur, í sósur, sultur og hlaup, en ekki síður í heilsudrykki og út á hafragrautinn. Mér áskotnaðist margir lítrar af vestfirskum, aðalbláberjum á dögunum eftir að ung frænka mín hafði farið um berjabrekkurnar þar af slíkum krafti að eftir var tekið. Síðan hefur matreiðsla og bakstur úr berjunum átt huga minn allan í eldhúsinu. Hér kemur ein tillaga að köku sem fallið hefur vel í kramið mínu heimili.
- 100 g smjör, brætt
- 3 egg
- 2 dl púðursykur
- 1 dl heilhveiti (eða annað hveiti)
- 1 dl haframjöl
- 1 tsk vanillusykur
- safi af ½ límónu
- 2-3 dl bláber
- möndluflögur, ef vill
Hrærið eggin og púðursykurinn saman. Bætið síðan hveitinu, haframjölinu og vanillusykrinum saman við ásamt smjörinu og límónusafanum. Setjið deigið í lítið eldfast form, dreifið berjunum yfir og stráið möndluflögum yfir ef þið viljið. Bakið í 25 mínútur við 200 gráður.
Gott er að bera bökuna fram volga með rjóma eða ís en bakan er líka ljúffeng köld. Upplagt er að margfalda uppskriftina, kæla kökurnar og frysta.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.