Avókadóávöxturinn er ein af þessum fæðutegundum sem kallaðar eru ,,ofurfæða‘‘ vegna þess hve ríkur hann er af hollri næringu. Í avókadó, sem á íslensku er einnig nefnt lárpera, er einstaklega holl fita og mikið magn trefja. Avókadó er frábært út í alls kyns salöt, með skelfiski og í hráfæðismatargerð er það oft notað í súkkulaðikökur og eftirrétti!
Í sumar hef ég verið að leika mér með alls kyns útfærslur á þessum dásamlega ávexti og hef fallið fyrir því að hafa ríkulegt magn af ferskri myntu með í för og notfært mér þannig góða sprettu kryddjurtarinnar í garðinum og pottunum.
Þessi eftirréttur sem hér er gefin uppskrift að er mjög frísklegur og kemur skemmtilega á óvart. Eftir nokkrar tilraunir og útfærslur fór börnunum á heimilinu að líka bragðið og nú er jafnan beðið um ábót! Og nú er um að gera að nota dásamleg berin sem eru að þroskast á trjánum eða úti í móa. Mér finnst huggulegast að bera réttinn fram í litlum glösum og þegar ég hef átt þau tilbúin í ísskápnum hverfa þau fljótt enda um frábæran og hollan millibita að ræða.
Uppskrift í sex lítil glös
- 2 avókadó, vel þroskuð
- 1 grænt epli, lítið
- handfylli fersk mynta
- safi af einni límónu
- 2 tsk. hunang
- 2 msk. kókosolía, brædd
- fersk ber, til skrauts
Afhýðið avókadóið, takið steinana úr og setjið í matvinnsluvél. Skrælið og kjarnhreinsið eplið og bætið út í. Síðan er myntunni, límónusafanum, hunanginu og kókosolíunni bætt út í og blandað vel í matvinnsluvélinni þar til verður jafnt og slétt. Gott er þó að finna aðeins fyrir eplabitunum. Smakkið blönduna og ef ykkur finnst hún of súr skulið þið bæta meira hunangi út í. Sett í lítil glös og kælt í nokkra stund í ísskáp. Skreytt með berjum þegar borið fram. Hentugt að gera deginum áður en bera á fram en athugið þá að setja plast yfir glösin.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.