Avocado er einstaklega hollur fitugjafi og er hrikalega gott að setja ávöxtinn í salatið eða gera sér guacamole.
Það tók mig dágóðan tíma að læra að kaupa Avocado. En oftar en ekki kom ég heim með kannski þrjá ávexti og endaði uppi með að geta notað tæplega einn!
Það var ekki fyrr en Solla á Gló benti mér á hvernig ætti að versla inn Avocado en í staðinn fyrir að velja sér ávöxt sem er mjúkur viðkomu á maður að kaupa hann grjótharðann!
Ávöxturinn er einstaklega viðkvæmur fyrir hitabreytingum og þar sem eru oft miklar hitabreytingar í matvörubúðum þá viljum við að hann þroskist hjá okkur á eldhúsbekknum í staðinn fyrir að misþroskast í búðinni.
Núna kaupi ég ávöxtin grjótharðann, læt hann standa á borðinu í 3-4 daga og skelli svo inn í ísskáp!
Með þessu get ég átt Avocado inn ísskáp lengi lengi og þegar ég ætla að skella í mig mexíkóskum mat, eða hálfu avocado með kotasælu og smá salti, þá er það ekkert mál! Það er alltaf á réttu þroskastigi.
SNIÐUGT!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.