Norræna húsið í Reykjavík verður vettvangur áhugaverðra vangaveltna um matarleifar og matarmenningu þann 18. mars n.k.
Málþingið er tvískipt, fyrrihluti þess fjallar um sóun á mat og sjónum beint að þeim miklu verðmætum sem er sóað í hverju skrefi matvælaframleiðslu. Skoðað verður hvað er til ráða við þessum vanda, hvernig tekið er á sóun í verslunar- og veitingarekstri og reynslu annarra landa. Seinni hluti ráðstefnunnar fjallar um matarmenningu í Þýskalandi og á hinum Norðurlöndunum.
Í hádeginu verða matarleifar í matinn!
Norræna húsið hefur fengið til liðs við sig kokkinn Hinrik Carl Ellertsson sem ásamt kokkunum á veitingahúsinu Dill mun matreiða upp úr matarleifum. Kokkarnir hafa fengið leyfi til að nálgast mat frá verslunum og veitingastöðum sem annars væri fleygt í ruslið.
Tilgangurinn er að vekja athygli á þeirri gríðarlegri verðmætasóun sem á sér stað í matvælaframleiðslu og inni á heimilum en talið er að heimilin í landinu fleygi mat fyrir 30 milljarða á ári! Sóunin hefur ekki eingöngu áhrif á matvælaverð heldur er mikið umhverfisvandamál, má þar nefna brottkast í sjó og metangas mengun frá ruslahaugum.
Fyrirlesarar verða: Selina Juul, frá Stop spild af Mad í Danmörku, Sólveig Ólafsdóttir frá Melabúðinni Gylfi Freyr Gunnarsson frá Grand Hótel, Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur og Nadja Flohr- Spence frá Slow Food í Þýskalandi. Málþingið fer fram á ensku.
Seinnihluti málþingsins ,,millimál“ er um matarmenningu í Þýskalandi og á hinum Norðurlöndunum. Þar verður sjónum beint að matarhefðum, máltíðarmenningu og hvernig nýr norrænn matur veitir ný þýskum mat innblástur.
Frítt er inn á málþingið sem er öllum opið en hádegisverður kostar 1500 krónur.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.