Allt í lagi, enginn sykur segirðu. Ég fæ mér þá agave síróp út á hafragrautinn á morgnana, það er í fínu lagi, er það ekki ? spurði ég Kolbrúnu grasalækni þegar ég talaði við hana í fyrsta skipti fyrir rúmum fjórum mánuðum.
Ég man það eins og það hafi gerst í gær, þetta var 13. júlí, sama dag og ég borðaði síðasta súkkulaðimolann. Svarið sem hún gaf mér brosandi var einfalt: Nei.
Ég horfði undrandi á Kolbrúnu um leið og ég spáði í að labba út úr verslun hennar og fá mér súkkulaði í næstu sjoppu.
En þarna stóð ég þó áfram með stálviljann að vopni, ákveðin í að fara eftir ráðleggingunum, ná upp aukinni orku og vinna bug á exemkenndu útbroti.
Ég hafði lengi verið með exemblettinn, hann var mismikið áberandi, virtist vera stresstengdur eða næstum lifa sínu lífi á húðinni á mér. Ég vildi losna við hann hið fyrsta. Til þess þurfti bara að prófa eitt :
Hætta að borða sykur, ger, mjólkurvörur og hveiti svo eitthvað sé nefnt.
Einhverjum finnst það kannski hljóma einfalt en sjálf komst ég að því að sykur, ger og hveiti leynist í nánast ÖLLUM mat og þegar ég segi sykur þá meina ég allar tegundir af sykri, líka agave og hrásykur!
Til að byrja með mátti ég ekki heldur fá þurrkaða ávexti sem innihalda mikinn sykur þó náttúrulegur sé. Áður hafði ég drukkið allskonar mjólkurdrykki eins og mér væri borgað fyrir. Blandað mjólkurhristinga sem ég hélt að væru stútfullir af próteini og hollustu – en þegar ég fór að lesa á innihaldslýsingarnar sá ég að flestir tilbúnir mjólkurdrykkir innihalda fullt, fullt, fullt af sykri. Þetta fór beint á bannlistann, því miður.
Ég byrjaði hægt og rólega. Í
fyrstu vissi ég ekkert á hvað mátti borða og hvað ekki. Í heilsubúðum keypti ég sérstakar blöndur af hafragraut því þessi sem fæst í Bónus í hvítum og rauðum pakka er á bannlista. Fyrsta morguninn sem ég borðaði hreinan hafragraut með sojamjólk og engum viðbættum sykri, hryllti mig við þessu. Í dag finnst mér þetta rosalega gott, vil ekkert annað og allra síst sykurdrullu út á þetta.
Annað sem ég vissi ekki, er að það er ger í kaffi og svörtu tei! Já, aldrei hefði mig grunað það. Það er líka ger í hvítvíni, rauðvíni og bjór! Þetta þýddi auðvitað bara eitt, ég steinhætti að drekka allt sem er gott og gerjað. Bara af því að ég er nú lifandi og vil gera eitthvað af mér drekk ég samt áfram en nú bara gin eða vodka og þá í vatni með sítrónu. Það má alveg, þótt það sé ekki holt fyrir lifrina. Ógeðslegt segir einhver, nei alls ekki – bragðlaukarnir mínir elska ginbragð með sítrónu. Til hvers að drekkja því í sykurleðju?
Í dag eru liðnir fjórir mánuðir og exembletturinn hefur látið undan síga. Það gerðist þó ekki á einni nóttu og þetta var pirrandi, erfitt og mjög leiðinlegt verkefni. Góðu fylgifiskarnir samfara breyttum lífsstíl eru samt meiri þróttur, minni svefnþörf, engin þreyta eftir máltíðir. Endalausar hugmyndir, svo margar að það jaðrar við brjálæði og hver vill ekki akkúrat þetta?!
Stundum segir fólk við mig að fyrst exemið sé farið geti ég farið aftur að borða allt – þá meina ég allt þetta góða; sósur með rjóma og osti, pitsur með pepperoni og beikoni, ís á á sunnudögum, rauðvín og hvítvín. Jú, auðvitað er það allt í lagi að svindla af og til, og ég geri það að sjálfsögðu, en ég kann vel að meta nýju sykurlausu mig og ætla að halda þessari línu áfram.
Margir vilja forvitnast um matarræðið hjá þeim sem snertir ekki á sykri, ger, mjólkurvörum né hveiti.
Það er ósköp einfalt og til glöggvunar tók ég mynd af matarinnkaupum gærdagsins. Eins og sést er þarna m.a.
- Lýsi
- Udo´s olía
- kalktöflur
- grænmeti
- fiskur
- kjöt
- egg
- hrökkbrauð ofl. og fl.
Þetta er ekkert mál. Það skiptir bara mestu að skipuleggja sig og kunna að segja nei-takk. Árangurinn mun ekki svíkja þig.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.