Við Pjattrófur biðjumst velvirðingar á bloggleti undanfarna fimm daga en hér verður snarlega bætt úr því með snaggaralegri umfjöllun um maska.
Sjálf nota ég hvað… þrjár eða fjórar tegundir af möskum og allar á víxl. Eitt er reyndar ekki maski heldur kornakrem sem sumir kalla kornamaska. Hann er frá Kiehls og heitir því “eftirminnilega” nafni Microdermabration. Eðal kornamaski sem kostar í kringum 40 dollara í USA. Þetta fæst því miður ekki hér.
Kornamaskann nota ég að meðaltali tvisvar í viku, þegar ég er í sturtu og sér í lagi ef ég hyggst setja á mig brúnkukrem á eftir. Hann svænvirkar þessi maski. Allar dauðu, ljótu og vondu húðfrumurnar hverfa eins og dögg fyrir sólu og andlitið verður eins og vel bónaður barnsrass.
Annar maski sem ég nota mjög reglulega er rakamaski. Ég á tvo… Annar er frá Nuskin og heitir creamy hydrating masque, (eða Rjómakenndi Rakamaskinn… skyldi maður snara þessu á íslensku) en hinn maskinn minn er frá Guinot og heitir Nutrition Confort (instant radiance moisturizing mask). Báðir alveg rosalega góðir.
Þessi frá NuSkin er góður af því ég get sett hann á mig um kvöldið áður en ég fer að sofa og þarf ekki að þrífa hann af fyrr en næsta morgun. Þannig er hann eins og 6000 hitaeininga næturkrem sem dælir raka í húðina. Túrbó áhrif.
Maskinn frá Guinot er grænn á litinn, alveg klassískt, og hann má ekki fara að sofa með af því hann klínist hann í koddaverið. En það er gott að hafa hann á í soldinn tíma til að fá áhrifin sem best fram. Hann græðir húðina og er sérlega góður ef húðin verður fyrir sérstöku álagi.
Síðast en ekki síst á ég maska sem heitir Masque Energy Lift frá Guinot og hann er þrusufínt að nota áður en maður bregður undir sig betri fætinum og skellir sér á mannamót. Hann svona gefur húðinni létta strekkingu og gæðir hana ljóma. Hafa hann á í korter áður en maður farðar sig fyrir ballið.
Ég á góða, dansk/tékkneska vinkonu sem notar eiginlega aldrei svona dótarí, en hún elskar að koma í vídeókvöld til mín og efla vinkonutengslin með ákveðinni “helgiathöfn”.
Þá horfum við saman á einhverja góða mynd, litum á okkur augabrúnirnar, förum í heitt fótabað, drekkum te og klínum á okkur maska.
Þetta er náttúrlega öllum vinkonum nauðsynlegt og við förum endurnærðar að sofa eftir svona kvöld. Búnar að trúnóa yfir okkur og með glansandi húð og mjúka fætur. Ódýr en algjörlega stórkostleg skemmtun 🙂
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.