Ég er byrjuð í langþráðu átaki og í fyrsta skipti á ævinni er ég að fara til einkaþjálfara, Hrafnhildar Halldórsdóttur í Hreyfingu, sem setur mér fyrir æfingaprógramm og ber mig næstu þrjá mánuði.
Það eru í mér blendnar tilfinningar þar sem ég hef aldrei áður farið eftir leikfimiprógrammi og bara hreyft mig mér til skemmtunar í jóga, pilates, magadansi, badminton, spinning og fleiru huggulegu en nú verður það harkan SEX.
Og hvað ber að gera til að gefast ekki upp og ná tilætluðum árangri? Jú auðvitað setja sér markmið!
Rannsóknir sýna að þeim gengur best sem velja sér “gulrót” á borð við ferðalag eða langþráðan hlut í verðlaun fyrir erfiðið. Svo nú spyr ég sjálfa mig hvað vil ég fá eftir þriggja mánaða púl annað en ánægjuna af því að komast aftur í allar flottu gallabuxurnar mínar, hafa meiri orku og líta vel út í bikiní?
Auðvitað væri sólarlandaferð efst á lista en þar sem ég er í fæðingarorlofi með takmörkuð fjárráð þá sé ég það ekki gerast eftir þrjá mánuði. Verðlaunin mín til mín verða nokkrar æðislegar flíkur sem munu sitja vel á endurheimtum grönnum líkama. Falleg blúndunærföt, uppháar síðbuxur og þunn blúndu- eða silkiskyrta við er efst á lista. Einnig sá ég æðislegan kjól á síðu All saints sem væri æði við svartar blúndu-sokkabuxur, já ég sé að blúnda er alveg málið hjá mér í haust!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.