Flest okkar höfum einhver markmið sem við viljum ná. Sum okkar vilja eignast börn eða eignast meiri peninga, meðan aðrir vilja mennta sig, hjóla hringinn í kringum landið eða jafnvel vera grennri (held að margir vilji vera grennri). Sumir eru með mörg markmið meðan aðrir eru bara með eitt, markmið geta verið stór og lítil, stutt og löng, í augum annarra óyfirstíganleg en fyrir aðra ekkert mál.
Það sem skilur þá að sem afreka hluti og þá sem afreka ekki hluti er oft ekki það að hafa markmið heldur er það að hafa áætlun til að ná markmiðum sínum.
Það dugar samt sem áður skammt að búa sér til markmið og setja niður áætlun nema framkvæma blessuðu áætlunina en með því næst markmiðið (trommusláttur).
Einfalt ?
Ekki alltaf… en gerlegt! Gæti verið spurning um smá hugafarsbreytingu.
Þeir sem hafa tamið sér að framkvæma hluti segja ekki eingöngu við sjálfan sig: “Ég verð, eða mig langar að vera búin að léttast um 2kg eftir tvo mánuði”, heldur bæta þeir við og segja: “Til að ná markmiði mínu um að léttast um 2kg eftir tvo mánuði ætla ég að hreyfa mig í hálftíma á dag og borða hollan og næringaríkan mat”. Svo standa þeir við orð sín og hreyfa sig hálftíma á dag (eða eins og áætlunin segir til um) og borða hollan og næringríkan mat… (meiri trommusláttur).
Markmið þýða nákvæmlega ekkert, nema maður gerir sér áætlun um HVERNIG eigi að ná markmiðum sínum, en það er því miður ekki nóg að segja bara við sjálfan sig “HVAÐ langar mig að gera”.
En það má samt ekki taka frá “hvað-inu”, að það að vita HVAÐ þig langar að gera er oft byrjunin á því að vita HVERNIG þú ætlir að komast þangað þannig að þegar þú ert búin að finna út hvað þig langar að gera settu þá niður á blað (eða í huganum) hvernig þú ætlar að komast þangað og vittu til þú heyrir trommuslátt.
Hvað er þitt HVERNIG ?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.