„Ég hef alltaf verið skapandi – jafnvel hvað varðar matargerð, fataval og hvernig ég hef heimili mitt. Ég fæ sérstaklega útrás í matargerðinni.” segir Guðmundur Birkir Pálmason og hlær þegar við spjöllum saman.
Gummi kíró eins og hann er oft kallaður hefur ekki einungis mikla ástríðu fyrir kírópraktorstarfinu sínu á Kírópraktorstofu Íslands í Sporthúsinu, heldur sinnir hann einnig málaralistinni af heilmiklum ákafa. Áhugann segir hann ætíð hafa verið til staðar en bróðir hans hvatti hann til þess að veita þessu áhugamáli meiri athygli.
Eftir að hafa uppgötvað hvernig málverk geta tekið á sig mynd og form án þess að nota pensilinn – heldur einungis að nota fingur, hendur, fætur og orku fóru verkin að verða að veruleika. Málverkin lætur hann veðrast í þó nokkurn tíma úti fyrir sem sem gerir þetta hráa yfirbragð á verkin.
Fékk mikið lof eftir sýningar í Stokkhólmi
Undir áhrifum listamanna á borð við Julian Schnabel, Basquiat, Richter og Rauschenberg ákvað Guðmundur Birkir að taka sér listamannanafnið NORR og halda sýningu í Stokkhólmi þar sem hann bjó um tíma og menntaði sig.
Hjólin fóru fljótlega að snúast í Svíþjóð og boðin streymdu inn um að halda fleiri sýningar sem hann fékk mikið lof fyrir. Eftir að hafa flust búferlum til Íslands og unnið með Bjarna Sigurbjörnssyni leiðbeinanda sínum fór hann smám saman að vinna fleiri verk í bílskúrnum heima fyrir.
Afsprengi margra mánaða vinnu hefur nú skilað sér í formi áhrifamikilla málverka sem prýða veggi í Anarkía listasalnum í Kópavogi. Sýningin ber nafnið „Stúdíó 16″. Persónulega finnst mér áhugavert þegar að fólk hefur hæfileika á mörgum sviðum og leggur mikinn metnað í vinnuna sína. Bravó!
Síðasta sýningarhelgi Guðmundar Birkis (NORR) er núna um helgina og ég hvet alla sem njóta lista að kíkja við og skoða áhugaverð málverk Guðmundar Birkis sem augljóslega hefur lagt mikla vinnu og ástríðu í verkin sín. Ég er að minnsta kosti heilluð yfir litadýrðinni og sköpunarkraftinum sem springur út í verkunum!
Hægt er að fylgjast nánar með NORR á heimasíðunni hér eða á Facebook síðu listamannsins. Opnunartímar Anarkíu eru fimmtudag – sunnudag 21.-24. júlí kl. 15-18.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!