Ég fann hvernig ég svitnaði í lófunum og var orðin þurr í munninum. Það var augljóslega eitthvað að mér – mér var flökurt.
Hjartslátturinn varð hraðari með hverri mínútu sem leið. Svo gerðist það, bjallan hringdi. Það voru frímínútur. Krakkarnir hlupu út úr stofunni, allir nema ég. Þegar að köllin og lætin færðust fjær rölti ég fram á gang og andaði léttar. Hjúkk. Ég ákvað að hanga aðeins á ganginum í von um að enginn tæki eftir því.
Skyndilega birtist HANN með hlægjandi strákana í eftirdragi. Hann gekk hratt og örugglega og ég horfði á hann sveifla ljósa hárinu til og frá. Hann nam staðar fyrir framan mig. „Hæ” sagði hann og horfði beint í augun á mér. Ég roðnaði og sagði ekki orð. Eldsnöggt henti hann í mig samankrumpuðum blaðsnepli og hljóp í burtu. Vá , hann gat hlaupið svo hratt!
Ástfangin á miðstigi
Ég var enn hálf ástardrukkin þegar að stelpurnar birtust til að yfirheyra mig. Hvað vildi hann, hvað sagði hann og hvað gerði hann? Ég teygði mig í litla miðann sem lá á gólfinu og las upphátt: Ég er skotinn í þér, viltu byrja með mér? Ég ætlaði varla að trúa þessu. Var þetta eitthvað grín? Ég var búin að fylgjast með honum úr fjarska hlaupa um skólalóðina. Ljósu lokkarnir.
Hann var algjörlega fullkominn og hvernig hann bretti upp á kragann á jakkanum gerði hann extra sérstakan. Ég var lystarlaus og ekki sjálfri mér lík. Ég var á miðstigi í grunnskóla…og ástfangin.
“Hvað stendur á miðanum?, sagði ein stelpan og reif litla ástarbréfið af mér. „Oj…viltu byrja með mér? Hann er ógeðslegur að skrifa þetta. Ertu ekki reið núna?” Stelpurnar mændu á mig og biðu óþreyjufullar eftir svari.
Vissulega var þessi undarlega tilfinning búin að rústa saklausa lífi mínu og skyndilega var heimurinn orðinn frekar flókinn fyrir svona unga stúlku. Ég vissi hreinlega ekki hvað ég átti að gera við þessar tilfinningar.
Viltu ekki rífa miðann?
„Viltu ekki rífa miðann og henda honum?”, sagði stelpan sem ég vissi að væri líka skotin í honum. Já við vorum allar skotnar í honum. Ég kinkaði kolli og við röltum í halarófu út á skólalóðina og skyndilega stóð ég andspænis honum.
Hann brosti feimnislega til mín og mig langaði að grípa í hönd hans og hlaupa út í burskann. Hlaupa burtu frá öllum. Jafnvel fela okkur bakvið bíl.
Litla ástarbréfið fór í tvennt þegar ég reif það fyrir framan hann og alla hina. Brosið hvarf af vörum hans. Síðan snéri hann sér við og labbaði burt, án þess að líta tilbaka. Ég hafði niðurlægt hann.
Tómleikatilfinningin helltist yfir mig og ástarævintýrið var búið áður en það byrjaði. Bjallan hringdi inn og stelpurnar hlupu af stað tístandi úr hlátri. Ég þurrkaði tárið sem lak rólega niður kinnina á mér og stakk bútunum af bréfinu í vasann.
Mörg ár eru liðin- ansi mörg ár en ég gleymi þessu seint.
Þetta var fyrsta ástarbréfið sem mér var gefið. Nokkur hafa fylgt á eftir í gegnum tíðina en ég hef nú getað hamið mig og þakkað pent fyrir þau.
Einhver hjörtu hef ég sært, upplifað kærleik og vonbrigði eins og svo margir. Ástin er svo margvísleg á öllum stigum lífsins. Hún er jafn erfið og hún er yndisleg.
Ég var að sjálfsögðu bara barn en hræðslan við stríðnina frá krökkunum var svo mikil að frekar ýtti ég honum í burtu. Stráknum sem ég var skotin í og langaði að leika við. Ég er ekki viss um að ég kunni betur á ástina í dag en ég þori þó að segja hvernig mér líður og tjá það.
Í minningunni hvarf hann bara. Það sé kannski örlítið seint ….en fyrirgefðu Grétar, ástin gerir mann nefnilega stundum ruglaða ☺
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!