Marín Manda: Nei ég er ekki fullkomin ofurmamma

Marín Manda: Nei ég er ekki fullkomin ofurmamma

13125034_1138699259484898_8601621129561704407_n

Móðurástin er ólýsanleg. Þetta er óeigingjörn ást sem verndar og gefur hlýju. Hún er sterkari en allt og stundum er líkt og aldrei hafi verið klippt á naflastrenginn milli móður og barns.

Slíkt samband er sérstakt og einstaklega fallegt. Þegar ég varð móðir í fyrsta sinn var ég 26 ára. Líf mitt tók stakkaskiptum – hreinlega allt í veröldinni snérist um litlu dömuna mína sem þurfti svo mikið á mér að halda.

Ég var örlítið svekkt að fæðingin var erfið og löng. Hins vegar tók ég þessu nýja hlutverki mjög alvarlega og fannst ég lánsöm að hafa fengið þetta yndislega barn í hendurnar. Ég gaf brjóst í ár og svefn varð eitthvað sem tilheyrði fortíðinni. Að sjálfsögðu var oft erfitt en hvað um það. Ég elskaði hana svo mikið og ætlaði að tryggja að ég yrði góð móðir, kærleiksrík, hlý og gefandi. Stundum hef verið stolt af sjálfri mér og móðurhlutverkinu og aðra daga hefur mér fundist ég hafa gert allt rangt. Svo lít ég á börnin mín tvö sem eru mitt allra dýrmætasta og þá skil ég af hverju ég er hér.

index

Í dag er daman mín að ná mér í hæð. Hún vaknar fyrst á morgnanna og gerir morgunmat. Hún er sú sem bakar á heimilinu. Hún laumast í snyrtidótið mitt. Hún skammar mig fyrir að gleyma hlutum. Hún klæðir sig í fötin mín og leikur mig. Hún skammast sín líka fyrir mig stundum. Hún bannar mér að vera í of flegnum bol. Hún lagar á mér hárið áður en ég fer út fyrir dyrnar. Hún skellir stundum hurðum. Ég skamma hana. Við sættumst. Hlægjum saman. Förum á trúnó. Hún grípur í höndina á mér ef ég er stressuð og faðmar mig ef ég græt. Ég tek utan um hana þegar hún er upptrekkt og þerra tárin þegar eitthvað reynist erfitt. Við erum báðar með sterka réttlætiskennd. Við megum hvorugar aumt sjá. Við erum ekki alltaf sammála enda er hún barnið og ég móðirin. Þó hefur hún kennt mér svo margt um lífið, um tilfinningar og fólk. Hún skynjar ótrúlega hluti. Hún er „míníme” en samt er hún ólík mér. Hlédrægari og rólegri.

Að fylgja henni og bróður hennar í gegnum lífið verður mitt mikilvægasta hlutverk í þessu lífi. Leiðbeina þeim og hjálpa í gegnum lífsins olgu sjó og vonandi finna þau hamingjuna í því að vera þau sjálf, sama hvaða ákvarðanir þau taka.

Í dag er alþjóðlegi mæðradagurinn. Til hamingju allar mæður. Að vera móðir er mikill lærdómur en eitt er víst að það er engin móðir fullkomin – hins vegar er það allt í lagi. Þetta er krefjandi en jafnframt besta hlutverk í heimi. Við reynum bara að gera okkar besta.

❤️

Mömmur eru nefnilega bara mannlegar.

13177524_1138699022818255_4169182391312945713_n

pjimage

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest