Einu sinni átti ég kærasta sem gaf mér reglulega rauða rós. Alltaf eina rauða rósa pakkaða inn í sellófan og lítið sætt kort með frumsömdu ástarljóði eða nokkrum kærleiksorðum.
Ég held ég hafi roðnað í fyrsta sinn sem hann gaf mér rósina. Vissulega var ég ung en þetta var augljóslega rómantík sem ég hafði heyrt um en aldrei upplifað áður.
Vikurnar liðu og rósirnar urðu fleiri…og fleiri. Já og kortin líka. Í hvert sinn sem við áttum sambandsafmæli, tveggja vikna, fjögurra vikna og átta vikna – þá fékk ég rauðu rósina.
Bachelor þættirnar voru ekki orðnir að veruleika á þessum tíma svo ekki fékk hann hugmyndina þaðan. Ég veit ekki hvenær ég hætti að vera þakklát fyrir blómagjöfina: „Já, rauð rós einu sinni enn”..takk takk takk – aftur! …en það gerðist bara.
Rétt eins og unglingaástin þá fölnuðu rósirnar og gleðin smám saman gufaði upp.
Blóm eru áminning um góða stund, þakklæti eða gott tilefni
Ég missti áhuga á rósum í einhvern tíma en áhugaleysið var skammvinnt. Blóm eru svo falleg. Þau ilma vel, veita heimilinu glaðlegri blæ og eru oftast áminning um dásamlega stund, þakklæti eða skemmtilegt tilefni.
Nú veit ég ekki hvort þetta sé karma vegna vanþakklætis míns á rósunum í gamla daga en menn í mínu lífi hafa einfaldlega ekki verið sérstaklega duglegir að gefa mér blóm. Gjafirnar hafa óneitanlega verið margar dásamlegar en blóm hef ég sjaldan fengið.
Í dag kaupi ég blóm handa sjálfri mér þegar mig langar í eitthvað fallegt. Þannig dekra ég við mig. Á dögunum fór ég svo í bíltúr í Mosfellsdal og rakst á blómaræktunina Dalsgarð í útjaðri dalsins. Þarna var litríkt blómahaf rétt út fyrir borgina. Þessi fundur gladdi mitt litla hjarta og ég splæsti í gula páskatúlipana og stærstu rósir sem ég hef séð á ævinni. Þetta er nýi uppáhalds staðurinn minn en þau selja einnig gómsætis sultu. Þangað mun ég fara reglulega þó leiðin sé löng því þjónustan var einnig til fyrirmyndar.
Kæra karma, afsakaðu vanþakklætið í den, ég vil gjarnan fleiri rósir, túlipana og allskonar blóm í mitt líf. Takk fyrir !!
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!