MARÍN MANDA: 21. atriði sem mér finnst gott að muna eftir og þakka fyrir

MARÍN MANDA: 21. atriði sem mér finnst gott að muna eftir og þakka fyrir

img_0558

Ég get svo svarið það að þegar ég vaknaði í morgun þá langaði mig alls ekki á fætur. Ég vildi allra helst kúra allan daginn og dreyma eitthvað fallegt.

Ég var skyndilega með allar heimsins flóknustu vangaveltur í huganum og vissi ekki hvernig ég gat losnað við þessar hugsanir. Í morgunmat fékk ég mér svo karamelluköku – jú af því hún var þarna beint fyrir framan mig. Ég borðaði hana með bestu lyst og sleikti út um.

Ég mátti þetta. Ég er löngu orðin fullorðin og ræð mér sjálf.

Samviskubitið læddist þó að mér hægt og rólega svo ég greip banana og Hleðslu og ákvað að fara í langan göngutúr og labba úr mér pirringinn.

Rigningarúðinn féll á andlitið á meðan ég rölti um hverfið og velti lífinu fyrir mér og öllu heila klabbinu. Týpískt – þetta var svona allt gengur á afturfótunum dagur og ég var frústreruð.

Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi?

Kannski ekki rétti dagurinn til þess að fara í heljarinnar naflaskoðun en ég þurfti að komast upp úr volæðinu. Hver er tilgangurinn með þessu öllu saman? Sigrar, hindranir, gleði, reikningar, sorgir, matarinnkaup, veikindi, áskoranir, ástin.

Hver er lærdómurinn?  Af hverju er engin sól úti í dag? Ohh, mig langar í nýjan síma. Sjá þennan mann þarna, hann er bara úti í göngutúr með hundinn sinn, að dúlla sér.

Pirrandi! Æ, nei…hann brosti til mín. Já ok, hæ hæ góðan daginn já ég er einmitt líka bara í göngutúr því það er svo hressandi.

Fljótlega fór ég að flissa upphátt útaf dramatíkinni og ákvað að gefa sjálfri mér smá frið. Ég hef upplifað svo margt sem ég er ævinlega þakklát fyrir. Lífið hefur verið langt frá því að vera hefðbundið, jafnvel létt klikkað á köflum en upplifanirnar hafa gefið mér dýrmætar minningar. Þá er um að gera að hafa þakklætið ofarlega í huga. Það gerir í raun alveg gæfumuninn. Ég hef fengið þó nokkurn lærdóm á minni ævi sem mér þótti áhugavert að rifja upp í dag. Ekki vegna þess að lífið er einhver flækja heldur vegna þess að lífið er einmitt til þess að lifa því með öllu tilheyrandi.

Lærdómurinn er því eflaust sá að við getum alltaf lært eitthvað nýtt. Það er dásamlegt, ekki satt?  Hér að neðan er ágætur listi um  nokkur atriði sem lífið hefur kennt mér um sjálfa mig og aðra…hingað til!

fullsizerender

1. Öll eigum við sögu

Ekki dvelja of lengi við það liðna.  Fortíðinni er ekki er hægt að breyta eða hafa áhrif á. Fortíðin hverfur aldrei en hægt er að leggja hana til hliðar og einblína á að lifa í núinu. Það er einstakur hæfileiki sem mig langar að mastera.

2. Egg með sírópi….

….wait for it (Þið eigið eftir að þakka mér)…… er hið mesta gúmmilaði tarraaaaaa!!!

3. Brostu

Dýr sýna tennur til að hræða eða vera ógnandi en við mannfólkið brosum þegar við erum glöð og líður vel. Að brosa er einstaklega aðlaðandi og getur verið smitandi. Einlægt og fallegt bros getur því glatt ansi marga í kringum þig.

4. Enginn í veröldinni er fullkominn

Þetta kemur kannski einhverjum á óvart en samskiptamiðlarnir eru sjaldnast raunveruleikinn. Þessi hugmynd um ófullkomleika heldur okkur við efnið og hvetur okkur til þess að gera betur. Sannleikurinn er nefnilega sá að við erum ÖLL gölluð að einhverju leyti og það prumpar enginn rósarilm. Ég hlæ hrossahlátri og tek fyrir munninn, ég fikta í annarri augabrúninni þegar ég horfi á sjónvarpið. Ég segi hluti upphátt sem ég ætti ekki að segja. Fyrst og fremst er ég mannleg með öllum þeim kostum og göllum sem fylgja.

5. Það er tilgangslaust að keppa við tímann

Tíminn hverfur á augabragði. Notaðu tímann í að gera hluti sem þú elskar og vera í kringum fólk sem lætur þér líða vel. Sérhver atburður í þinni tímalínu mótar þig svo taktu reynslunni fagnandi. Hún er þinn styrkur.

img_8686

6. Notið sólarvörn ALLTAF!

Ok ég viðurkenni það….sólarvörn er víst málið.  Eftir að hafa verið brúnkusjúk um tíma kom auðvitað að því ég ég brann illa og þarf því að fara afar varlega í sólinni í dag.

7. Draumar geta orðið að veruleika

Margir af mínum draumum hafa ræst. Þess vegna mun  ég aldrei hætta að láta mig dreyma stóra drauma og setja mér góð og gild markmið. Að gefast upp eða sætta mig við hlutina er ekki til í mínum orðaforða. Það er alltaf hægt að taka U-beyju, breyta til eða skipta um skoðun. Fyrir tveimur árum var ég blaðamaður en í dag er ég flugfreyja og bæði finnst mér einstaklega gefandi. Ég hef ekki hugmynd um hvað gerist á næsta ári!

img_1280

8. Ást er ekki það sama og losti

Ástin er aldrei eins en hún snýst mikið um umhyggju og virðingu. Hún er þó aðeins sönn ef hún er endurgoldin. Annað er bara þráhyggja sem étur mann að innan. Þegar pabbi ætlaði að undirbúa mig undir ástarmálin í “den” þá sagði hann:

„Ef karlmaður er raunverulega ástfanginn af þér þá gerir hann allt til þess að sýna þér það. Það fer ekki á milli mála. Þú munt finna það.”

Ég hef alltaf talið mig vera næma en þetta varðandi ástina er enn að flækjast fyrir mér. Hins vegar hef ég lært að maður getur upplifað ástina oftar en einu sinni á lífsleiðinni.

9. Í hvert sinn sem þú sigrast á hindrun…

… þá bíður önnur handan við hornið. Taktu því sem áskorun!

fullsizerender10. Heilsan er mikilvægari en marga grunar

Hreyfing er nauðsynleg bæði fyrir andlegu og líkamlegu líðan þína. Ég hef áttað mig á því hvað er eldsneyti fyrir líkamann minn og þá skipta engir undrakúrar máli. Vegan eða ekki vegan?
Það skiptir ekki máli því ekki virkar það sama fyrir hvern og einn. Fyrir mig hentar að borða fjölbreytt, drekka nóg að vatni, leyfa mér allskonar en hreyfa mig reglulega. Ég fer í jóga því það losar um spennu og lætur mér líða vel. Kaka í morgunmat er því ekki að fara eyðileggja fyrir mér vikuna.

11. Hrósaðu fólki

Hvort sem það er fólk sem þú þekkir eða ekki. Það gefur þér og þeim sem meðtaka hrósið ákveðna vellíðunar tilfinningu sem getur breytt deginum. Það eru nefnilega allir að kljást við einhverja bardaga svo ekki hika við að gefa frá þér jákvæða orku og fallegt hrós.

12. Litlu hlutirnir skipta máli í stóra samhenginu

Lífsgæðakapphlaupið getur stundum tekið yfirhöndina og þannig getur maður gleymt sér. Litlu hlutirnir skipta nefnilega meira máli en mann grunar. Munið að njóta, sama hvað það er. Góður kaffibolli, faðmlag, góður matur, æfing í ræktinni, að lesa bók eða samtal við börnin í bílnum.

13. Djammviskubitið verður verra með árunum

Það er heldur ekkert undrameðal við þynnku. Ofnæmislyf og einhverjar þynnkupillur hjálpa eflaust einhverjum en allra skynsamlegast er að gleyma sér ekki í gleðinni, nærast vel fyrir og eftir trall og drekka nóg af vatni– ég viðurkenni fúslega að ég þarf að hlusta betur á skynsemisröddina mína.

img_5759

14. Þú ert einstök á allan hátt

Engin önnur kona er eins og þú. Þú verður aldrei önnur en þú sjálf og því er til einskins að brjóta sjálfa sig niður fyrir að vera ekki eins og hin og þessi. Þegar ég var yngri grenjaði ég yfir frekjuskarðinu mínu sem nú virðist vera komið í tísku. Ég vildi einnig vera löng og mjó og með talsvert minna nef. Í dag er frekjuskarðið löngu farið, nefið í samræmi við andlitið en ég verð alltaf mínir 162 cm og hvað með það? Mér finnst það kvenlegt, ótrúlegt en satt.

15. Að ferðast eru forréttindi

Ferðalög snúast ekki um að komast í verslanir þó að það getur verið ágæt þerapía inn á milli. Að upplifa nýjan stað, menninguna, skoða mannlífið og bragða á framandi mat er það sem ég dýrka. Ég fer ekki í fýlu ef ég kemst ekki í eina verslun en ég fer í fýlu ef ég get ekki ferðast reglulega.

fullsizerender_3

16. Að vera fyrirmynd er mikil ábyrgð, gerum okkar besta

Börnin okkar eiga til að herma eftir hegðunarmynstri okkar foreldranna. Förum varlega með þessa ábyrgð. Þannig bætum við líkurnar á að koma heilsteyptum sjálfstraustum einstaklingum frá okkur. Kennum börnunum okkar að vera góðhjörtuð og tillitsöm.

17. Vinskapur fer eftir gæðastundunum en ekki skemmtilegheitunum

Sannir vinir eru til staðar einnig þegar þú ert hundleiðinleg og getur ekkert gefið af þér. Þeir segja þér sannleikann, hlusta, skamma og styrkja þig. Vinir bæði gleðjast og syrgja með þér.

fullsizerender

18. Ef þú þarft að taka að þér hlutverk njósnara í sambandi…

…þá ertu ekki í rétta sambandinu. Punktur.

img_117819. Ekki trúa öllu sem þú heyrir

Hvort sem það er slúður um fólk sem þú þekkir eða kannast við eða annað hjal sem hljómar of gott til að vera satt. Sumt fólk meinar einfaldlega ekki það sem það segir.

 

20. Þú munt ekki heilla alla…

…sama hvað þú leggur á þig. Sumt fólk mun einfaldlega ekki geðjast eða laðast að þér. Höfnun er þá að sjálfsögðu mjög sár, sama hvort þú ert táningur eða miðaldra. En athugaðu að höfnun getur þó einnig leitt mann í skynsamlegri átt og þannig verið hin besta gjöf.

21. Ekki taka sjálfa þig of alvarlega

Við eigum flest öll auðvelt með að gagnrýna aðra en verst erum við okkur sjálf. Það er nauðsynlegt að hafa örlítinn húmor og gera grín af sjálfri sér. Vittu til…það er gott að geta hlegið ein með sjálfri sér.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest